- Advertisement -

Lausnin er ekki að skipta Ásgeiri út

Marinó G. Njálsson:

Botninn á því eru tilvitnanir í tveggja manna tal, sem hann segir ekki tveggja manna tal, heldur samskipti milli stofnana, og fer að lýsa tilfinningaástandi nafngreinds einstaklings sem ekki var aðili að samtalinu.

Fyrir fjórum árum var upplýst um mat hæfisnefndar til umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra. Fjórir karlar voru taldir mjög hæfir og einn þeirra var valinn. Ég taldi þá, og hef ekki skipt um skoðun, að Jón Daníelsson kæmi einn til greina, ef við vildum í raun og veru breytingar. Jafnframt taldi ég, að sá sem síðan varð fyrir valinu, væri ekki kominn þar í starfsferli sínum, að hann væri tilbúinn í starfið. Hef heldur ekki breytt skoðun minni á því og hef frekar styrkst í þeirri skoðun.

Ásgeir Jónsson byrjaði ágætlega í starfi sínu, var hreinskilinn í viðtölum og kom með rök sem stóðust skoðun. Hann var nýjungagjarn og með honum kom ferskur andblær. Svo gerðist það, að hann tók rangar ákvarðanir og þá fór hann í hrútskýringar frekar en að viðurkenna mistökin og leiðrétta þau. Kjánalegustu mistök hans eru að tala um setu sína í peningastefnunefnd annars vegar og fjármálastöðugleikanefnd hins vegar sem tvö algjörlega aðskilin hlutverk, þar sem allir aðrir eiga að átta sig á því, að hann er ekki seðlabankastjóri öllum stundum (sem hann er náttúrulega, en hann áttar sig ekki á því).

Það er samt þannig, að ekki er tryggt að einhver hinna umsækjendanna hefði blómstrað í stóli seðlabankastjóra.

Um það snýst stór hluti verðbólgunnar í dag.

Út um allan heim eru seðlabankastjórar að missa tökin á peningamálum og þeim fjölgar sem hafa hent nýju aðferðunum fyrir róða og eru núna að hækka vexti á gamla mátann. Enginn þeirra skilur, að þeir eru stór hluti vandans með því að dæla beint eða óbeint, án mikilvægra varúðarráðstafana, nýjum peningum inn í hagkerfið sem eðlilega leiðir til aukinnar verðbólgu. Svo vísað sé í Hagfræði 101, þá er það ein af grunnreglunum, að þegar meira magn peninga keppir um sömu vöruna, þá hækkar varan í verði. Hér á landi, þá beindu bankarnir nýjum peningum í miklu mæli til húsnæðiskaupenda án þess að Seðlabankinn gerði mikið til að koma í veg fyrir það. Afleiðingarnar voru hækkun markaðsverðs á íbúðarhúsnæði. En þar sem peninganefndarmaðurinn, Ásgeir Jónsson, talaði ekki fyrir og stefndi á sömu stöðugleikamarkmið og fjármálanefndarmaðurinn, Ásgeir Jónsson, þá gekk Seðlabankinn ekki í takt og skorti framtíðarsýn.

Þegar seðlabankastjóra er síðan bent á misfellurnar og misræmið í störfum hans, þá neitar hann að axla ábyrgð og segir þetta vera allt einhverjum öðrum að kenna. Botninn á því eru tilvitnanir í tveggja manna tal, sem hann segir ekki tveggja manna tal, heldur samskipti milli stofnana, og fer að lýsa tilfinningaástandi nafngreinds einstaklings sem ekki var aðili að samtalinu.

Þrátt fyrir þetta, held ég ekki að lausnin sé að skipta um seðlabankastjóra, þegar skipunartími hans er á enda eftir ár. Kjósi Ásgeir að sitja áfram. Hann verður hins vegar að líta í eigin barm og læra af reynslunni. Hann hlýtur að átta sig á því, að hann væri ekki að hækka vexti upp úr öllu valdi, ef hagstjórn hans hefði verið í góðu lagi. Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson verða að fara í sömu naflaskoðun, þar sem þeirra ábyrgð á hagstjórnarmistökum undanfarinna ára eru líka mikil. Það er aumt af þeim öllum, að horfa framhjá sinni ábyrgð og kenna fólkinu með lægstu tekjurnar um. Staðreyndir tala sínu máli og hlutur kjarasamninganna, sem fjármálastöðugleika Ásgeir fagnaði, en peninganefndarmaðurinn Ásgeir bolsótast út í, í verðbólgunni er frekar lítill samanborðið við græðgi eigenda fyrirtækja, sem hækka verð til að auka arðgreiðslur vegna þess að þær voru ekki nógu háar fyrir fjárhagsárið 2020. Um það snýst stór hluti verðbólgunnar í dag, ekki að fólk á lægstu töxtum þurfi hærri tekjur til að standa undir naumhyggjuneysluútgjöldum sínum.

Greini birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með leyfi höfundar.

Fyrirsögnin er Miðjunnar.

ritstj.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: