Ég bind enn vonir við að frá ríkisstjórn komi tillaga sem tryggir starfsemi Ljóssins.
Oddný Harðardóttir.
Facebook: „Allar greiningar sýna að krabbameinsgreindum hefur fjölgað umtalsvert á undanförnum árum og mun fjölga enn á næstu árum. Ljósið hefur fundið fyrir fjölguninni og um leið að kostnaður vex með fleiri skjólstæðingum. Það segir sig sjálft,“ skrifaði Oddný Harðardóttir fyrrverandi þingmaður, formaður Samfylkingarinnar og ráðherra.
„Þegar fjárlaganefnd lagði fram tillögu í fyrra haust um að alþingi samþykkti að Ljósið fengi tæpar 200 milljónir til viðbótar við það framlag sem lagt var til í fjárlagafrumvarpinu 2025, var það gert af vel ígrunduðu máli byggt á umsögnum og greiningum. Viðbótin var nauðsynleg svo Ljósið gæti náð endum saman og boðið upp á svipaða þjónustu við krabbameinsgreinda, endurhæfingu og stuðning á árinu 2025 líkt og gert var á árinu 2024. Þverpólitísk sátt var um tillöguna.
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2026 sem nú er til umræðu í þinginu, er ekki gert ráð fyrir að Ljósið þurfi þessa viðbót. Ég leyfi mér að fullyrða að okkur sem stóðum að tillögunni haustið 2025 datt ekki í hug að ný ríkisstjórn héldi að færri leituðu til Ljóssins á árinu 2026 eða vildi að Ljósið vísi krabbameinsgreindum frá á næsta ári.
Við þurfum á því að halda…
Öll þekkjum við sögur af fólki sem notið hefur þjónustu Ljóssins og komist fljótt aftur á vinnumarkað eftir veikindi einmitt vegna þeirrar þjónustu. Andlegur stuðningur sem Ljósið veitir er ekki síður mikilvægur. Hér þarf ekki að telja upp kosti Ljóssins því þeir eru þekktir og óumdeildir.
Fjárframlög sem fjárlaganefnd leggur til eru til eins árs. Ríkisstjórnin leggur hins vegar til framlög til lengri tíma og til samninga sem Sjúkratryggingar sjá um að gera fyrir ríkið. Ljósið mun þurfa að skera niður þjónustu við krabbameinsgreinda ef ekki kemur til aukið fjármagn frá ríkinu á árinu 2026 og næstu ár þar á eftir. Þannig er staðan.
Ég bind enn vonir við að frá ríkisstjórn komi tillaga sem tryggir starfsemi Ljóssins. Ef það gerist ekki vona ég að núverandi fjárlaganefnd sjái ljósið í bókstaflegri merkingu og leggi til framlag til eins árs líkt og fjárlaganefnd gerði haustið 2024.
Við þurfum á því að halda að Ljósið haldi áfram að grípa krabbameinsgreinda strax við greiningu og miðli til þeirra af reynslu, þekkingu og þeirri vandvirkni, fagmennsku og umhyggju sem starfsfólk Ljóssins er þekkt fyrir,“ skrifaði Oddný.