- Advertisement -

Grafalvarleg staða innan Sjómannafélags Íslands

Heiðveig María Einarsdóttir, frambjóðandi til formanns í Sjómannafélagi Íslands, skrifar:

Í yfirlýsingu sem stjórn Sjómannafélags Íslands hefur sent frá sér til fjölmiðla koma þeir ekki með nokkrar skýringar á því sem ég hef bent á heldur kýs stjórnin að láta sem ég sé að skaða félagið, bendir á að ég sé ekki samkvæm sjálfri mér í málflutningi mínum og sakar mig um órökstuddar ásakanir á hendur stjórninni. Ekkert af þessu er rétt. Stjórnin ræðir ekki efnislega það sem ég hef haldið fram þrátt fyrir að gögn um lagabreytingarnar á síðu félagsins og ekki voru samþykkt á aðalfundi hafi fylgt pistlum mínum.

Ég hefði talið eðlilegt á þessu stigi málsins að stjórnin hefði sent frá sér gögn sem hrekja málflutning minn ef hann væri rangur. Þar sem stjórnin áréttar að breytingar á 16. grein laganna hafi verið löglega samþykktar af aðalfundi á seinasta ári þá bendi ég á að ég hef ekki sagt að hér sé um fölsun að ræða heldur að það væri undarlegt að sú grein sem um ræðir sé með öðru letri í fundargerðabókinni og að ég hafi ekki sjálf fengið að sjá fundargerðabókina heldur bara fengið sendar ljósmyndir af henni.

Þá er það jafnframt stórundarlegt að starfsmenn og formaður félagsins hafi ekki séð tilefni til þess að kynna svo veigamikla lagabreytingu fyrir félagsmönnum með því að birta uppfærð lög á heimasíðu félagsins strax eftir meinta lagabreytingu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þann 28 september s.l. voru lög félagsins birt á heimasíðunni eins og þau voru samþykkt á aðalfundi 3. nóvember 2016. Það að formaður félagsins taldi ekki ástæðu til að kynna fyrir félagsmönnum fyrr en í október 2018 að þeir þyrftu að hafa greitt í félagið í 3 ár til þess að vera kjörgengir er ekkert annað en vanvirðing og skeytingaleysi gagnvart öllum félagsmönnum sem hann þó á að vera í vinnu fyrir.
Það er bæði ótrúverðugt og ekki til þess fallið að skapa traust hjá félagsmönnum.

Það sem ég hins vegar tel vera falsanir eru aðrar lagabreytingar sem settar hafa verið inn á vef félagsins en hafa ekki verið samþykktar á aðalfundi skv. fundargerðabókinni. T.d. var 7. grein laganna ekki breytt á aðalfundi skv. fundargerðum er ég hef fengið afhentar en er nú breytt inn á vefnum. Í 7. grein í fundargerðabókinni segir „Réttindi félagsmanna eru eftirfarandi:
a) Tillögu- og atkvæðaréttur á félagsfundum svo og kjörgengi…“ og er þessi grein bökkuð upp með 4. grein sem segir „Sá sem greiðir félagsgjald telst félagsmaður…“.
Í 7. grein laganna sem við sjáum inn á vefnum í dag hefur „kjörgengi“ verið þurrkað út úr réttindum félagsmanna, án heimildar aðalfundar, enda staðfestir meðfylgjandi afrit úr fundargerðabók þá staðreynd.

Með þessum orðum vil ég sýna fram á breytingar sem gerðar voru, þar sem réttur til að bjóða sig fram varð háður 3 ára samfelldri greiðslu á félagsgjöldum, gildir ekki og hefur aldrei gilt þar sem réttindi félagsmanna samkvæmt lögum félagsins eru kjörgengi og til að vera félagsmaður þarf maður að greiða í félagið eins og ég hef gert.

Þar sem afstaða stjórnarinnar liggur nú fyrir mun ég óska eftir stuðningi félaga til að boða til félagsfundar sem allra fyrst þar sem hægt er að ræða stöðuna innan félagsins – sem er grafalvarleg. Þá vegna þeirra atriða sem ég hef bent á að undanförnu og vegna þess hvernig núverandi yfirstjórn hefur m.a. breytt lögunum án heimilda – það er staðreynd – sem og gripið til annarra aðgerða sjálfum sér til hagsbóta en ekki með hag almennra félagsmanna að leiðarljósi.

Félagsfundur er æðsta vald í málefnum félagsins og ég treysti okkur félagsmönnunum fullkomlega til þess að taka afgerandi afstöðu og mun því óska eftir stuðningi a.m.k. 100 félagsmanna til þess að boða til slíks fundar. Af samtölum mínum við sjómenn að undanförnu veit ég sem er að stjórnin endurspeglar ekki almennan vilja félagsmanna.

Stjórnin eins og aðrir félagsmenn verða að hlíta vilja félaganna eins og hann birtist á félagsfundi þar sem lýðræðið hefur síðasta orðið.

Þegar ég lagði upp í þessa vegferð fór ég í hana með það að leiðarljósi að leggja fram alla mína krafta til hagsmuna fyrir félagið og leggja það síðan í hendur félagsmanna hvort að við sæjum framtíðina á sama eða svipaðan hátt og ég sé hana – þá með því að félagsmenn kysu á milli tveggja eða fleiri valkosta um þá forystu sem þeim hugnast. Að leggja fram málefni og lista sem fengi meðferð á lýðræðisgrundvelli var það eina sem ég gerði kröfu um í þessari vegferð og þótti í raun sjálfsagt í því sem við ættum að kalla félag sem starfar í umboði okkar. Starfsmenn og stjórn hafa lýðræðislegum skyldum að gegna gangvart félagsmönnum og þar með talið mér – það tel ég að hafi brugðist líkt og ég hef sýnt fram á.

****Til frekari upplýsinga er hér samantekt á breytingunum****

Til enn frekari upplýsinga þá er hér samantekt af þeim breytingum er gerðar voru á lögunum á heimasíðu félagsins í byrjun október 2018. Samtals eru þetta 8 breytingar og einungis ein þeirra kemur fram í fundargerð.

Eftirfarandi breytingar verið gerðar á lögum félagsins: Í a lið 7. gr. hefur verið tekið út varðandi réttindi félagsmanna: a) Tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum svo og kjörgengi (tekið út) Í fundargerðabókum félagsins frá aðalfundi 2016 og 2017 er engin tillaga um þessa breytingu og hún virðist fyrst birtast sem lagabreyting á heimasíðu félagsins í byrjun október 2018 en er hvergi skráð annars staðar.

  1. gr.
    Búið að taka út úr greininni:
    Trúnaðarmannaráð er kosið fjórða hvert ár á tímabilinu september til október, sem kemur til framkvæmda frá og með 2016 og skal auglýst eftir framboðslistum skv. 19. gr. með tveggja sólarhringa fyrirvara. Skulu framboðslistar berast til kjörstjórnar innan þess tíma.

Þá hefur verið bætt við að trúnaðarmannaráðsfundur skuli boðaður bréflega eða með rafrænum hætti.

Um hlutverk trúnaðarmannaráðs varðandi tillögur til stjórnar er bætt við setningunni: Kjörgengir eru þeir félagar sem hafa greitt í félagið s.l. þrjú ár.

Búið að taka út vísun í 19. gr. laganna í setningunni: Trúnaðarmannaráð auglýsir eftir framboðslistum eigi síðar en 5. nóvember skv. 19. gr.(tekið út) Búið að breyta setningunni : Ef aðeins einn framboðslisti hefur borist til stjórnar trúnaðarmannaráðs og matsveinadeildar eru þeir menn sem þar eru tilnefndir sjálfkjörnir stjórn.

Var áður: Ef aðeins einn framboðslisti hefur borist við stjórnarkjör eru þeir menn sem þar eru tilnefndir sjálfkjörnir stjórnendur félagsins.

Búið að taka út dagsetningu í lok setningarinnar: Ekki er hægt að leggja fram framboðslista fyrr en eftir kl 12:00 nóvember.

Var áður: 5. nóvember

Breytingar á 19. gr. laganna sem varðar fundi og stjórnarkjör.

Búið að taka út:
Til fundar skal boða með tveggja sólarhringa fyrirvara með auglýsingu í dagblaði Ef blöð koma ekki út vegna stöðvunar er fundarboðun og boðun kosninga í útvarpi fullnægjandi.
Samkvæmt afritum úr fundarbók félagsins af aðalfundi frá 28. desember 2017 er tekið fram að Sigurgeir Friðriksson hafi kveðið sér hljóðs á þeim fundi og gert tillögu um breytingu á 16. gr. laganna varðandi kjörgengi félaga og að greitt skuli hafa verið í félagið s.l. 3 ár.

Að öðru leyti er ekki kveðið á um neina aðra lagabreytingu á þeim fundi – en samt eru samtals 8 lagabreytingar á lögunum frá því á aðalfundi 2016 fram yfir aðalfundar 2017.

Þá er það stórfurðulegt að í fundargerð frá 28 desember 2017 þar sem lög félagsins eru tilgreind eftir lagabreytingu – þar kemur fram í 7. grein að réttindi félagsmanna séu tillögu- og atkvæðisréttur á félagsfundum svo og kjörgengi – en á heimasíðu félagsins þann 9. október er búið að taka út í a. lið 7. gr. að félagsmenn hafi kjörgengi.

Auk þess eru tilvísanir í aðrar greinar innan laganna ekki í samræmi við tilvísanirnar sjálfar og þá sérstaklega þær greinar sem búið er að breyta.

Reykjavík 17.10.2018
Heiðveig María Einarsdóttir


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: