- Advertisement -

NEYSLUFÁRIÐ Á ÍSLANDI

Á sama tíma erum við Íslendingar á bólakafi í neysluforaðinu.

Árni Gunnarsson skrifar:

Í Noregi er nú mikið rætt um styttingu vinnudagsins í 6 klukkustundir. Sérfræðingar fullyrða, að þessi stytting muni ekki draga úr þjóðarframleiðslunni. Hins vegar muni hún draga úr almennri neyslu, bæta við verðmætum samverustundum fjölskyldna, fækka stundum barna á dagheimilum og hafa heilsubætandi áhrif á unga og gamla. Í könnun, sem gerð var fyrir skömmu, kom í ljós verulegur stuðningur við þessa hugmynd og jafnframt var stór hluti þjóðarinnar reiðubúinn að greiða hærri skatta til að viðhalda og styrkja velferðarsamfélagið. Almenningur var jafnframt reiðubúinn að draga úr almennri neyslu.

Á sama tíma erum við Íslendingar á bólakafi í neysluforaðinu. Bílakaup eru með ólíkindum. Á bílasölum er hafsjór notaðra bíla; margir 1 til 2ja ára gamlir. Sjónvarpstæki eru flutt inn í gámaförmum og margir kaupa ný tæki, örlítið stærri en þau gömlu, sem þeir vita ekki hvernig þeir eiga svo að koma í lóg. Heimilistæki eru víða endurnýjuð þótt þau eigi langan líftíma eftir. Svo fá sum börn 100.000 króna snjallsíma, dýra Ipada og margskonar tölvuleiki. Á Íslandi ríkir tækjaæði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Svo kvarta margir undan því, að allar geymslur þeirra séu yfirfullar af drasli; hlutum, sem eitt sinn voru taldir ómissandi. Sem betur fer er þó unga fólkið farið að temja sér minimalisma, og kemst fljótlega að þeirri niðurstöðu, að lífshamingjan minnkar ekkert þótt minna sé keypt.

Nú væri fróðlegt að gera könnun á afstöðu Íslendinga til 6 klukkustunda vinnudags og hve mikið þeir reiðubúnir að leggja af mörkum til að viðhalda traustu velferðarsamfélagi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: