- Advertisement -

Fræðimenn opinbera eigin fáfræði

Fræðimenn ættu frekar að velta því fyrir sér af hverju unga fólkið okkar er að gefast upp? 

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:

Nú opinberar hver fræðimaðurinn á fætur öðrum fáfræði sína og stórhættulegar hugmyndir um hvað sé ungu fólki fyrir bestu og hvað ekki þegar kemur að húsnæðislánum, vöxtum og verðtryggingu.

Þær mótvægisaðgerðir við fyrstu skref afnáms verðtryggingar, sem kynntar voru af Frosta nefnd Sigurjónssonar á föstudaginn síðasta, ættu að gefa ungu fólki, tekjulágum og þeim sem jaðarsettir eru á húsnæðismarkaði, eftir áföll, raunverulega von um að geta eignast eitthvað á lífsleiðinni í stað þess að enda í eitruðu skuldafangelsi til æviloka sem eina valkost inn á húsnæðismarkað. Nýjar lausnir sem raunverulega hjálpa þessum hópum.

Því er haldið fram að heimilin hafi hag af hærri vöxtum vegna þess að skuldir heimilanna séu lægri en eignir þeirra og vísað í eignir almennings í gegnum lífeyrissjóðina. Með þessu fullyrðir einn fræðimaðurinn að með því að lækka vexti tapi heimilin gríðarlegum upphæðum eða um 12 milljörðum á ári og lætur sem að ávöxtunarkrafan sem lífeyrissjóðirnir gera með fjárfestingum sínum sé í hendi með vaxtarstiginu einu saman. 

Hefðu 1% vextir til eða frá breytt einhverju fyrir heimtur af verðtryggðum skuldabréfum sem lífeyrissjóðirnir keyptu í nafntoguðum útrásarfyrirtækjum fyrir hrun? Mun sjóðunum takast að sneiða fram hjá markaðsáföllum og niðursveiflum framtíðarinnar? Bara tap á fjárfestingum sjóðanna í verkefnum tengdum Silicon framleiðslu ættu að slá á þessu rök og þá er allt annað eftir.

Þá er haldið fram að betra sé að keyra upp vexti og ríghalda í verðtryggingu til að lífeyrissjóðirnir hafi frekar efni á að halda uppi eignalausu fólki í framtíðinni og á sama tíma skautað framhjá þeirri gríðarlegu áhættu sem sjóðsöfnunarkerfum fylgir.

Það eru EKKI vextirnir eða ávöxtunarkrafan sem tryggir okkur öruggan lífeyri heldur GÆÐI fjárfestinganna.

Í dag eru tveir ólíkir hópar að fara á ellilífeyri. Hópar sem hafa greitt í lífeyrissjóði frá því þeim var komið á fót í þeirri mynd sem við þekkjum í dag eða frá 1969. Þeir hafa greitt í sjóðina í 50 ár eða lengur og í 40 ár síðan verðtryggingu var komið á með Ólafslögum árið 1979. Annar hópurinn lifir við þokkaleg kjör en hinn hópurinn á við mjög alvarlegan framfærsluvanda að stríða, jafnvel fátækt. 

Öðrum hópnum tókst að koma skuldlausu þaki yfir höfuðið en hinum ekki. Raunhækkun lífeyris (verðtrygging) er svo tekin á móti með skerðingum af framlagi tryggingastofnunar á meðan húsnæðiskostnaður rýkur upp úr öllu valdi. 
Þess vegna er mikilvægt að skilgreina húsnæði (þak yfir höfuðið) sem mikilvægasta þátt lífeyris þegar við hugsum til framtíðar. 

Þess vegna er mikilvægt að horfa á lánskjör og vaxtarstig sem lífskjaramál því það er hluti af því að við fáum ekki vel menntað fólk, sem flúði hér lífskjör, til að snúa til baka. Fólk sem hefur upplifað þau lífsgæði sem felast í því að búa við heilbrigð og manneskjuleg lánskjör sem bjóðast í þeim löndum sem við erum alltaf að bera okkur saman við.

Fræðimenn ættu frekar að velta því fyrir sér af hverju unga fólkið okkar er að gefast upp? 

Ég vona svo sannarlega að þjóðinni beri sú gæfa að fræðimönnum sem telja verðtryggingu og okurvexti vera til góða, því hærri því betra, verði haldið eins langt frá stjórnun peningamála og mögulegt er.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: