- Advertisement -

„Ég er minn eigin böðull“

Hvað mig langar oft að bugast og öskra og gráta. Ég ákvað að láta barnið mitt deyja. Þær tilfinningar og hugsanir og sá veruleiki sem því fylgir eru erfiðari og flóknari en orð geta tjáð. Það skilur enginn sem ekki hefur staðið í mínum sporum.

Hólmfríður Gísladóttir skrifar:

Af gefnu tilefni..

Hvar á ég að byrja? Ég hef tekið ákvörðun um að láta barnið mitt deyja. Skömmu eftir að ég átti yndislegu dóttur mína varð ég aftur ólétt. Í svokölluðum 20. vikna sónar fengum ég og maðurinn minn að vita að litli drengurinn okkar var með sjaldgæfan og alvarlegan hjartagalla. Veröldin hrundi. Við stóðum frammi fyrir ómögulegri ákvörðun; að klára meðgönguna og bjóða barninu okkar upp á ömurlegar lífslíkur og lífsgæði eða að rjúfa meðgönguna innan nokkurra daga. 22 vikna markið var handan við hornið.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Þeir gættu að því að taka ekki afstöðu en skilaboðin voru þessi: þetta var ekkert líf sem beið elsku barnsins okkar.
Ljósmynd: Alex Hockett.

Það gat enginn tekið þessa ákvörðun fyrir okkur. Það gat enginn hlíft drengnum okkar við þeim grimmilegu örlögum sem honum voru ætluð. Vonin var erfiðust. Að öllum líkindum biðu Nóa okkar fjöldi aðgerða og inngripa, endalaus sjúkrahúsvist. Það var ef hann lifði. Ég þyrfti að eiga barnið erlendis, sögðu sérfræðingarnir, en það var auðsótt mál af þeirra hálfu. Þeir gættu að því að taka ekki afstöðu en skilaboðin voru þessi: þetta var ekkert líf sem beið elsku barnsins okkar. Við ráðfærðum okkur við netið en komumst fljótt að því að reynslusögur annarra hjálpuðu lítið; fólk í okkar aðstæðum tekur ólíkar ákvarðanir út frá ólíkum forsendum. Og það var enga reglu að finna í því. Konur sem ýmist höfðu ákveðið að rjúfa meðgönguna, ganga með barnið 40 vikur og leyfa því svo að deyja án inngripa, eða láta reyna á allar þær bjargir sem læknisfræðin hefur upp á að bjóða.. þær gátu t.d. allar verið trúaðar. Eða ekki.

Við komumst að lokum að þeirri niðurstöðu að við þyrftum að taka þessa ákvörðun með velferð Nóa í huga og ekkert annað. Ekki út frá því hvað væri „rétt“ út frá einhverri hugmyndafræði, ekki út frá því hvað væri best fyrir fjölskylduna okkar, heldur út frá því hvað væri best fyrir hann. Eða minnst hræðilegt, öllu heldur. Í ákvörðunarferlinu fór ég í gegnum allar dökku hliðar tilfinningaskalans. Ég fann mig knúna til að endurmeta afstöðu mína til þungunarrofs/fóstureyðinga, til trúarinnar, til móðurhlutverksins. Vonin var verst. Það var alltaf von að hann hefði þetta af; að hann gæti lifað einhverju lífi í einhver ár. En vonin var lítil. Og við þurftum að spyrja okkur að því hvort við gætum lifað með því að horfa á hann þjást í lengri tíma ef við ákváðum að klára meðgönguna. Þá væri ákvörðunin úr okkar höndum. Þá væri of seint að grípa inn í.

Það gat enginn sérfræðingur sagt við mig að það væru svo og svo miklar eða litlar líkur á að barnið mitt lifði.

Á þessum örfáu dögum sem við höfðum til að ákveða okkur sótti að mér sú hugsun að ef til vill væri betra ef ég hefði ekki þetta val.. að láta son minn deyja. Þá hvíldi ábyrgðin ekki á mér. En það gat enginn annar tekið þessa ákvörðun. Það gat enginn sérfræðingur sagt við mig að það væru svo og svo miklar eða litlar líkur á að barnið mitt lifði. Að lífsgæðin yrðu þessi eða hin. Af sömu ástæðu er ómögulegt að ætla að skilgreina það í lögum hvenær konur mega og mega ekki fara í fóstureyðingu. Jafnvel þegar um er að ræða sama fósturgallann þá getur alvarleiki hans spannað allan skalann. Og stundum er ómögulegt að spá fyrir um leikslok. Þá geta engir aðrir en foreldrar barnsins axlað ábyrgð á ákvörðuninni. Það er ekki hægt að leggja það á aðra að glæða eða slökkva vonina sem tengist nýju lífi.

Þetta var okkar ákvörðun að taka; foreldra Nóa. Og úrslitavaldið lá hjá mér. Við syrgjum drenginn okkar saman en á ólíkan hátt. Pabbi hans Nóa grætur litla strákinn sinn og hefur áhyggjur af konunni sinni en ég á ein þá minningu að liggja í rúminu í myrkrinu og þögninni og finna barnið mitt sparka inni í mér eftir að hafa tekið þá ákvörðun að láta hann deyja. Það er hryllingur sem ég óska engum að reyna. Að fæða hann en fara tómhent heim. Að finna mjólkina koma en engan munn að seðja. Að upplifa enn í dag óútskýranlega orkuhleðslu í handleggjunum sem fengu aldrei að faðma litla barnið sitt, að þrá nánd sem verður ekki uppfyllt. Og ef við hefðum ákveðið að klára meðgönguna hefði ég ein upplifað það að finna barnið mitt vaxa og dafna í maganum á mér í 9 mánuði full trega og ótta yfir velferð hans.

Ég er tveggja barna móðir en fæstir vita af barninu sem býr núna bara í hjartanu mínu. Fæstir vita hvað ég elska Nóa mikið og hvað ég er sorgmædd yfir því að hafa hann ekki hjá mér.

Ég mun aldrei geta talað þá til sem eru þess fullvissir að ég hafi myrt barnið mitt, að ég sé á leiðinni til helvítis. Ég hef ekkert við þá að segja nema þetta: ég er minn eigin böðull. Ekki á hverjum degi en stundum þá hvíslar efinn í eyrað mitt: var þetta rétt ákvörðun.. hvað ef.. það var alltaf einhver von. Ég geng til sálfræðings sem er að reyna að sannfæra mig um að ég sé góð mamma, að sorgin og sektarkenndin sem ég upplifi séu afleiðing réttrar ákvörðunar, að ég finni til af því ég tók á mig sársaukann í staðinn fyrir barnið mitt. Ég sakna Nóa á hverjum degi og sé ekki fyrir endann á sorginni. Líklega hverfur hún aldrei en umbreytist vonandi í eitthvað fallegt. Minningarnar verða kannski eitthvað minna sárar, sérstaklega þær sem eru góðar á vissan hátt. Eins og af því að halda á elsku fallega stráknum mínum í lófanum og strjúka honum og kyssa. Að sjá hvað hann var líkur systur sinni.

Þrátt fyrir efann sem stundum nagar mig þá stend ég með ákvörðun minni. Ég bið engan fyrirgefningar nema Nóa minn, þegar mér finnst ég þurfa þess. Ég er tveggja barna móðir en fæstir vita af barninu sem býr núna bara í hjartanu mínu. Fæstir vita hvað ég elska Nóa mikið og hvað ég er sorgmædd yfir því að hafa hann ekki hjá mér, yfir því að hann hafi aldrei fengið að njóta þeirrar ástar sem umvefur minninguna um hann. Hvað mig langar oft að bugast og öskra og gráta. Ég ákvað að láta barnið mitt deyja. Þær tilfinningar og hugsanir og sá veruleiki sem því fylgir eru erfiðari og flóknari en orð geta tjáð. Það skilur enginn sem ekki hefur staðið í mínum sporum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: