- Advertisement -

Kvóti á flugferðir og miðbæinn

Þau sem þurfa að ferðast meira yrðu þá að kaupa heimild til utanferða af þeim sem hafa minni hug á utanferðum.

Gunnar Smári.

Gunnar Smári skrifar:

Ef fólk heldur að það sé hægt að leysa hamfarahlýnun jarðar með tækjum markaðarins væri nær að útdeila gæðum og heimila framsal í stað þess að leggja á tafagjöld og kolefnisgjöld. Skattlagning dregur úr mengun með því að þrýsta hinum verr settu út úr hinni skaðlegu neyslu, hin betur settu geta haldið áfram að menga. Þetta er svipuð aðgerð og beitt var í ginfárinu á Bretlandseyjum fyrir þrjú hundruð árum; þá var gin skattlagt út úr kaupgetu alþýðunnar. Valdastéttin mat það svo að drykkja alþýðufólks væri vandamálið. Tafagjöld, kolefnisgjöld og annar slíkur skattur á óæskilega hegðun er sama eðlis; markmiðið er að fæla alþýðufólk frá hinni óæskilegu hegðun svo hin betur settu geti áfram mengað. Réttlátara væri að skammta hverjum landsmanna eina eða tvær utanlandsferðir. Þau sem þurfa að ferðast meira yrðu þá að kaupa heimild til utanferða af þeim sem hafa minni hug á utanferðum. Þetta er sama kerfi og notað er varðandi mengunarkvóta, þau fyrirtæki sem menga minna geta selt ónotaðan mengunarkvóta til þeirra sem menga meira. Eftirmarkaður með þessa kvóta er algjör skítur og skömm, kvótarnir ýta í raun undir mengun í stað þess að draga úr henni en ástæðan er líklega fyrst og fremst sú að of mikið hefur verið gefið út á kvótum. En ég ætla ekki að verja þetta kerfi, myndi fara aðrar leiðir (hrekja auðvaldið frá völdum, fyrirbrigðið sem mesta ábyrgð ber á mengun) en vildi benda þeim sem halda að hægt sé að leysa umhverfisvána með markaðsaðgerðum innan kapítalismans að skattlagning er í reynd ekki markaðsaðgerð; en útdeiling kvóta er það ef framsal er heimilt.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Nú, eða safnað upp kvótanum sínum til að nota síðar, gefa börnunum sínum í stúdentsgjöf eða sleppt því að nota kvótann.

Hvernig myndi þetta virka í raun? Þegar þingmaður sem ferðast mikið er búinn með sínar tvær ferðir upp úr miðjum janúar þarf hann að finna utanferðarheimildir á markaði og kaupa þær. Jóa Jóns, starfskona á leikskóla, sem aldrei á efni á utanlandsferð og mengar því ekki neitt getur þá selt yfirstéttinni kvótann sinn og notað tekjurnar til að eiga fyrir mat út mánuðinn. Nú, eða safnað upp kvótanum sínum til að nota síðar, gefa börnunum sínum í stúdentsgjöf eða sleppt því að nota kvótann. Loftslagsgæði eru almannagæði og ættu að skilgreinast sem eign allra, ef fólk vill skilgreina allt sem markað; ekki aðeins eign ríkisvaldsins.

Í stað þess að skattleggja miðbæjarferðir til að fæla hina fátækari frá væri réttlátara að allir fengju að fara í bæinn þrisvar.

Sama á við um heimsóknir í miðbæinn. Allir ættu að hafa sama aðgengi að þeim gæðum. Í stað þess að skattleggja miðbæjarferðir til að fæla hina fátækari frá væri réttlátara að allir fengju að fara í bæinn þrisvar. Þeir sem vilja fara oftar þyrftu að fá aðra til að gefa sér kvótann, t.d. með því að ganga úti með hundinn þeirra eða taka til í geymslunni.

Ekki skamma mig fyrir þessar tillögur. Ég er ekki að leggja þetta til. Mér finnst bara að þau sem trúa að markaðurinn leysi öll mál best ættu að koma með almennilega markaðshugmynd en ekki aðeins enn eina tillöguna um að draga úr álagi hinna ríku af lífi hinna fátækari.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: