- Advertisement -

Hægri menn hafa hertekið RÚV

Þetta er slæm þróun sem hefur orðið hjá RÚV.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Ég held að fólk átti sig ekki á því hversu Sjálfstæðismenn hafa meðvitað og massíft unnið að því að laga RÚV að sínum þörfum. Ráðning Stefáns Eiríkssonar í stöðu útvarpsstjóra er nýjasta dæmið. Ég efast ekki um að Stefán er fínn maður en málið snýst ekki um það. Málið snýst um að Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa tögl og hagldir vegna þess að RÚV hefur að sjálfsögðu sterk skoðanamyndandi áhrif. Um það þarf ekki að deila.

Þetta mál á sér langa sögu. Hannes Hólmsteinn ásamt fleiri innanbúðarmenn í Sjálfstæðisflokknum voru strax upp úr 1990 farnir að þrýsta á að ráðnir yrðu til starfa menn sem voru flokknum þóknanlegir. Markús Örn Antonsson var þá útvarpsstjóri. Gallharður sjálfstæðismaður. Á þessum tíma starfaði ég sem dagskrárgerðarmaður í Dægurmálaútvarpi Rásar 2 undir stjórn Stefáns Jóns Hafstein, sem ekki lét segja sér fyrir verkum. Hins vegar var þessi þrýstingur frá Hannesi og co svo mikill, með Markús Örn í broddi fylkingar, að það var leitað logandi ljósi að einhverjum dagskrárgerðarmanni sem væri til hægri og þóknanlegur sjálfstæðismönnunum. Það er nú svolítið kaldhæðnislegt að það var eins og að leita að nál í heystakk að finna einn slíkan þarna um 1990. Einhvern sem væri hæfur í starfið.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það er engum blöðum um það fletta að hægri menn hafa hertekið RÚV. Alveg sama þó hægt sé að benda á góðar umfjallanir sem koma einstaka sinnum frá Kveik. Hægri menn og auðmenn hafa áttað sig á því að til að viðhalda völdum sínum þarf að hafa skoðanamyndandi áhrif í gegnum fjölmiðla. Kvótakóngarnir reka Morgunblaðið, auðmaður sem varð ríkur á málningarfyrirtækinu Hörpu sem hann erfði (Helgi Magnússon í Hörpu) á Fréttablaðið sem er últra hægri blað og eigendur Sýnar (visir.is, Stöð 2, Bylgjan FM957 og Xið 977) eru meðal annars umsvifamikil stórfyrirtæki á Íslandi og þar er stjórnarformaður Heiðar Guðjónsson, einn af stóru hrunverjunum. DV er líka í eigu bissnessmanna sem vilja umfram allt reka það þrátt fyrir endalaust tap. Og af hverju vilja auðmenn reka þessa fjölmiðla þrátt fyrir endalaust og botnlaust tap? Til að hafa áhrif á það hvernig fólk hugsar og hegðar sér. Og hvernig það kýs. Sterka leiðin til að halda völdum.

Þetta er slæm þróun sem hefur orðið hjá RÚV. Ég starfaði þar fyrst sumarið 1983 í afleysingum á fréttastofunni, síðan sem dagskrárgerðarmaður árið 1986 og svo 1990-92 á dægurmálaútvarpinu eins og fyrr segir. Mér þykir ákaflega vænt um þessa stofnun og allt hæfileikaríka fólkið sem ég starfaði með. Ég hef því nokkuð góða innsýn í hvernig þetta hefur breyst og hvernig hægri menn hafa smá saman styrkt stöðu sína þar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: