- Advertisement -

Ríkisstjórnin siglir hraðbyri gegn eigin stefnu

Guðjón Brjánsson.

„Opinberum störfum fjölgaði hins vegar á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 1.350 á þessu sama tímabili,“ sagði Guðjón Brjánsson á Alþingi í dag. Þar rifjaði hann upp orð núverandi ríkisstjórnar.

„Ríkisstjórnin skráði ýmislegt, stórt og lítið, í sáttmála þegar hún hleypti heimdraganum, m.a. að ráðuneyti og opinberar stofnanir skyldu vinna að því að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eftir fremsta megni. Í kjölfarið fylgdi svo stefnumarkandi byggðaáætlun til ársloka 2024. Þar voru sett fram þau viðmið að 5% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum ættu að verða án sérstakrar staðsetningar fyrir árslok 2019 og í lok tímabilsins yrðu 10% auglýstra starfa án staðsetningar. Þetta eru ekki róttæk eða afgerandi plön og þetta er það sem hefur verið gert, að plana og tala“ sagði Guðjón og benti á eftirfarandi:

„Þó var skipaður starfshópur um mitt ár í fyrra sem átti að kafa í málið og skila tillögum að sameiginlegri aðgerðaáætlun allra ráðuneyta fyrir áramót. Og hvar skyldi þá málið vera statt? Það er að koma góa og ekkert er að frétta. Byggðastofnun hefur gert könnun á staðsetningu starfa á vegum ríkisins frá árinu 2014 sem sýnir að hlutfall stöðugilda á vegum ríkisins í samanburði við íbúafjölda er hæst á höfuðborgarsvæðinu en lægst á Vesturlandi og þar á eftir kemur Suðurland.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Guðjón hafði ekki lokið máli sínu og bætti við:

„Í nýlegum Hagvísi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi eru enn staðfestar breytingar á opinberum störfum á tímabilinu 2013–2018. Þeim hefur hvergi fækkað eins mikið og á Vesturlandi, um nærri fjórðung í Stykkishólmi, eru fæst í Hvalfjarðarsveit, í Snæfellsbæ og á Akranesi. Svipaða tilhneigingu má raunar sjá um allt land með stöku frávikum. Opinberum störfum fjölgaði hins vegar á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 1.350 á þessu sama tímabili.“

Guðjón lauk máli sínu á þennan hátt:

„Er það nokkurt áhorfsmál að ef standa á við einhvern hluta af þeim markmiðum um opinber störf án staðsetningar þá sé eins gott að ríkisstjórnin fari að bretta upp ermar?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: