- Advertisement -

Furða að Icelandair hafi ekki leitað fyrr til ríkissjóðs

Ætlum okkur að vera síðust inn og fyrst út.

Bjarni Benediktsson skrifar:

Í sjöfréttum RÚV í gærkvöld var fjallað um ýmis mál sem liggja fyrir þinginu sem kemur saman á morgun. Meðal annars ræddi ég við fréttamann um Icelandair og ríkisábyrgð sem til stendur að veita félaginu.

Ef allt fer á besta veg mun félagið ekki þurfa að nýta sér þetta úrræði. En ef til þess kemur hef ég lýst því þannig að við ætlum okkur að vera síðust inn og fyrst út. Ég bind vonir við að Icelandair spjari sig án þess og sagði reyndar við fréttamann RÚV að mér þætti það tíðindum sæta, í alþjóðlegu samhengi, að Icelandair hefði ekki þurft að leita á náðir ríkissjóðs fyrr og ekki með meira afgerandi hætti. Ýmis stærri og umsvifameiri flugfélög í Evrópu hefðu t.d. nú þegar þurft að leita til sinna stjórnvalda um lán eða hlutafé og mér fyndist þetta bera glöggt vitni um styrk Icelandair.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þessari ríkisábyrgð á lánalínum til Icelandair er ætlað að stuðla að því að fullnægjandi árangur geti náðst í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins og að tryggja að það hafi burði til að takast á við áskoranir, jafnvel þótt áhrif heimsfaraldursins vari lengur en nú er gert ráð fyrir. Hugsunin er sú að innlend ferðaþjónusta og tengigeta Keflavíkurflugvallar geti tekið hratt við sér þegar fólk fer að ferðast aftur í einhverjum mæli. Með ríkisábyrgð á lánalínum til Icelandair erum við því að skapa grundvöll að kröftugri viðspyrnu fyrir innlenda ferðaþjónustu og efnahagslífið í heild.

Greinina birti Bjarni á Facebooksíðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: