
Vigfús Ásbjörnsson:
Gæti verið að stórtækar loðnuveiðar hér við land séu undirrót þess að allir bolfiskstofnar okkar Íslendinga fóru skyndilega hnignandi í lok síðustu aldar og hafa aldrei náð sér á strik síðan?
Það getur ekki verið að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að veiða silfrið og fórna gullinu! Hingað til hefur gullið verið mun verðmætar en silfur.
Vissuð þið að loðna er ein mikilvægasta fæðutegundin fyrir þorsk og aðra bolfiska í kringum Ísland. Loðnan er sérstaklega mikilvæg fæða fyrir þorsk sem er 5 til 7 ára gamall. Rannsóknir hafa sýnt að holdafar þorska á þessum aldri sveiflast með lífmassa loðnunnar.
Loðnan er kaldsjávarfiskur og með hlýnandi sjó í kringum landið leitar loðnan norðar og í kaldari sjó. Afleiðingar af engum loðnustofni hér við land geta orðið hræðilegar fyrir þorskstofninn okkar og þar með allan íslenskan sjávarútveg. Aflabrestur (veiðar) í loðnu er ekkert gamanmál en brestur í veiðum á stofni snýr að skammtímahagsmunum. Rof á vistkeðju hafsins (lífmassa loðnunnar) sem loðnan er stór hlekkur í er mun alvarlegri hlutur en aflabrestur. Það að Hafrannsóknarstofnun sé að reyna að finna síðustu loðnuna til að drepa hér við land er galið. Frekar ætti að leyfa þessum síðustu loðnum sem en vilja synda hér í kringum landið að vera og verða að fæðu í okkar vistkerfi. Stórtækar loðnuveiðar hófust ekki hér við land fyrr en um 1974. Eða 10 árum áður en kvótakerfið var sett á vegna aflabrests í þorskveiðum.
Er þessi aflaregla kannski röng?
Sjávarútvegsráðuneytið notast við þá aflareglu að hrygningarstofn loðnu sé aldrei minni en 400.000 tonn eftir að veiðum líkur. Er þessi aflaregla kannski röng eins og svo margt annað sem kemur frá Hafrannsóknarstofnun? Ættum við kannski að hafa aflaregluna 800.000 tonn eða meira sem þyrfti að verða eftir í kringum landið eftir að veiðum lyki? Ættum við kannski að sleppa því alfarið að veiða hana? Erum við kannski að skilja eftir of lítinn lífmassa loðnu eftir í hafinu eftir að veiðum líkur til þess að bolfiskstofnar okkar fari stækkandi? Gæti verið að stórtækar loðnuveiðar hér við land séu undirrót þess að allir bolfiskstofnar okkar Íslendinga fóru skyndilega hnignandi í lok síðustu aldar og hafa aldrei náð sér á strik síðan? Ef svo er að samband sé hér á milli, hvað haldiði þá að loðnuveiðar hafi kostað okkur Íslendinga mikið?
Höfundur er virðiskeðjufræðingur og smábátasjómaður.