- Advertisement -

Niðurrifs orðræðan innan íslensks sjávarútvegs

Vigfús Ásbjörnsson skrifar:

Ekkert virðist meiga gera innan greinarinnar á hvorn veginn sem er öðrvísi en að allt verði viltlaust í greininni.

Þeim sem fylgst hafa með umræðunum innan íslensks sjávarútvegs undanfarið þá hefur ekki dulist neinum sú orðræða sem viðhöfð hefur verið innan greinarinnar og þykir mörgum miklu meira en nóg um. Já innan greinarinnar því orðræðan kemur ekki utan frá heldur eru það aðilar innan sjávarútvegsins sem deila eins og svo oft áður og bara alls ekki alltaf á málefnanlegan né réttlátan hátt. Hvers vegna þessar ofsafengnu umræður, viðbrögð og niðurrifskrif? Þetta skilar engu nema upplýsingaróreiðu, særindum og niðurrifi íslensks sjávarútvegs. Við erum orðin eins og fráfarandi ríkistjórn sem sá alveg um að rífa sjálfa sig niður og þeim tókst það.

Nú hefur ríkistjórnin skrifað það í stjórnarsáttmálann að hún ætli sér að efla hér strandveiðar innan fiskveiðikerfisins og tryggja strandveiðibátum 48 daga til veiða. Að efla veiðarnar í 48 daga er nefninlega risastórt sanngirniskref fyrir strandveiðisjómenn sem telja um 700 manns í kringum landið en er einungis pínulítill biti í stóra samhenginu innan okkar stóra sjávarútvegs. Við þessa eflingu virðist sem SFS og einstaka aðilar leggist á hliðina og hafa látið eins og það sé ógn við íslenskan sjávarútveg og fiskistofna sem það klárlega er ekki. Allskonar níð hafa verið sett í loftið eins og að strandveiðimenn séu ekki alvöru sjómenn og að þeir liggi í ormafisk og skili lélegu hráefni í land alla daga og að á strandveiðum séu bara áhugasjómenn og hvað annað. Þetta bara er ekki rétt og gerir fátt annað en að skapa skotgrafarhernað sem engu skilar. Á móti hefur stórútgerðin fengið á sig ósanngjarna orðahríð og yfirlýsingar úr hendi strandveiðisjómanna sem ekki er heldur falleg né hvað þá sanngjörn eins og að stórútgerðin vilji hér öllu eyða og að stórútgerðin sé að verða að uppistöðunni til frekir silfurskeiðungar. Ekkert af þessu á rétt á sér, hvorki af hálfu smábátasjómanna né frá talsmönnum stórútgerðarinnar og er í besta falli skemmandi fyrir alla greinina.

Af hverju getur ekki ríkt sátt innan greinarinnar og af hverju leggur greinin ekki allt kapp  á það að öll útgerðarform fái þrifist?  Öll formin eru þjóðinni lífsnauðsinleg, stór og smá. Ekkert virðist meiga gera innan greinarinnar á hvorn veginn sem er öðrvísi en að allt verði viltlaust í greininni. Sama hvort við á um stórútgerð eða smábátaútgerð. Ísland á allt undir öflugum sjávarútvegi og innan þess sjávarútvegs þarf útgerðarformið að vera fjölbreytt og framkvæmt í sátt við samfélagið og í sátt við sjálfa sig. Stórútgerðin er okkur lífsnauðsynleg, það vita það allir sem vilja vita og smábátaútgerðin er okkur lífsnauðsynleg líka. Saman byggja mismunandi útgerðarform hvort annað upp. Allt útgerðarformið, fiskvinnslan og nýsköpunariðnaðurinn í sjávarútveginum endurspeglar svo það sem við köllum íslenskan sjávarútveg og við eigum sem þjóð að getað verið stolt af.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er engum til hagsbóta…

Þessari orðahríð og ljótum fullirðingum og yfirlýsingum sem eiga kannski ekki við rök að styðjast verður að linna. Þetta er engum til hagsbóta og skaðar bara greinina og er aðilum innan greinarinnar til skammar. Sjálfur er ég ekkert barnanna bestur  í þeirri orðræðu sem notast hefur verið við í gegnum tíðina og þykir mér sjálfum nóg um og ekki er ég heldur stoltur af því enda eru hér mál að linni. Með þessari orðræðu úr öllum áttum verður greinin sjálfri sér verst og rífur sjálfa sig niður á meðan að umræðan gæti allt eins verið uppbyggilegri. Það skiptir allri greininni og fólkinu sem í henni starfar miklu máli að umræðan verði tekin upp á hærra plan og í stað þeirra orðræðu sem virðist orðið einkenna íslenskan sjávarútveg verði sett ný stefna í að stuðla að því að efla alla sem í greininni starfa og fara að tala fallega til hvors annars, hugsa í lausnum og efla fjöreggið okkar sem íslenskur sjávarútvegur er.

Höfundur er virðiskeðjufræðingur og smábátasjómaður.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: