- Advertisement -

Blákalt öskur um þjóðarhag fiskveiða

Vigfús Ásbjörnsson smábátasjómaður:

Aldrei liggja nein reiknidæmi sem fylgja með yfirlýsingunum. Bara blákalt öskur um að strandveiðar séu eitthvað óhagkvæmari fyrir þjóðarbúið en „hin frábæra og sjálfbæra útgerð SFS“.

Nú er öskrað bara blákalt öskur um að strandveiðar séu óhagkvæmar fyrir þjóðarbúið! Enn eru þær það?

Nú er öskrað bara blákalt öskur um að strandveiðar séu óhagkvæmar fyrir þjóðarbúið! Enn eru þær það?

Nú hef ég séð suma stjórnmálamenn og þá helst XD, Framsókn og Miðflokkinn fara mikið um að strandveiðar séu ekki hagkvæmasta útgerðarform í heimi. SFS gasprar þetta í sínum eigin bergmálshelli eins og enginn sé morgundagurinn án nokkurs rökstuðnings. Vitnað hefur verið í keyptar skýrslur sem SFS hefur látið útbúa fyrir sig, sennilega með fyrir fram ákveðnum niðurstöðum eins og gerist og gengur stundum hér á klakanum. Aldrei liggja nein reiknidæmi sem fylgja með yfirlýsingunum. Bara blákalt öskur um að strandveiðar séu eitthvað óhagkvæmari fyrir þjóðarbúið en „hin frábæra og sjálfbæra útgerð SFS“.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar verið er að reikna út hagkvæmni veiða fyrir þjóðarbúið eru nokkrar breytur sem hagfræðingar ættu að taka með í reikninginn við útreikninga sína svo reikningarnir verði trúverðugir sem ég er nokkuð viss um að þeir gera ekki.

Á handfæraveiðum.
Veiðarfæri er ekki bara veiðarfæri.

T.d., mismunandi tortímingarmáttur veiðarfæra og hagkvæmni þess að tortíma meiri fiski en veiðarfærið veiðir. Veiðarfæri er ekki bara veiðarfæri. Það er kostnaður fyrir þjóðarbúið ef veiðarfæri drepur mikið í kringum sig annað en það veiðir. Gæti gengið frá fiskistofnum þjóðarinnar dauðum eins og vitna má um humarstofninn okkar. SFS finnst það greinilega mikil hagkvæmni að tortíma honum endanlega. Svo má taka inn í hagkvæmnireikningana þegar borið er saman kvótakerfi og strandveiðar, ísprósentusvindl, vigtunarsvindl og fleira og trúlega eru þetta þættir sem falla undir óhagkvæmni fyrir samfélagið en bara hagkvæmni fyrir þann sem stundar það. Svo mætti bæta inn í hagkvæmnijöfnuna , verðlagstofuverð og hvort það sé hagkvæmt fyrir þjóðarbúið að verðstofn veidds sjávarafla sé færður niður um tugi prósenta miðað við raunverulegt markaðsverðmæti. Kannski er þetta hagkvæmt fyrir þann sem stundar það en þetta er ekkert endilega  hagkvæmt fyrir þjóðarbúið þar sem allir skattstofnar verða lægri og þar með talin laun sjómanna og tekjur sveitarfélaga. Svo mætti rannsaka milliverðlagningu á fiski og finna út hvort skattsporið sé rétt á íslenskum fiski og hvort sá skattstofn sem raunverulega ætti að myndast hér heima geri það til fulls og hvort það sé hagkvæmt fyrir þjóðarbúið ef svo er ekki. Svo má skoða kostnaðinn við samþjöppunina fyrir þjóðarbúið, hvað skildi kosta að leggja öll byggðarlögin í rúst og gera eignir þar verðlausar og fólk atvinnulaust á bætur hjá ríkinu. Svo mætti skoða hvað sé hagkvæmt við það að tugþúsundir tonna brenni inni af ufsa í kvótakerfinu á hverju ári sem enginn má veiða nema sá sem á aflaheimildina. Frekar er þetta látið brenna inni sem óveiddur fiskur frekar en að gefa bara þessar veiðar frjálsar.  Það eru svo margar breytur sem hagfræðingar og aðrir sem reikna út hagkvæmni fiskveiða þurfa að taka inn í jöfnuna áður en þeir geta sagt okkur hvað sé hagkvæmt fyrir þjóðarbúið og hvað ekki. Allt þvaður um að strandveiðar séu óhagkvæmari veiðar fyrir þjóðarbúið en aðrar veiðar er bara þvaður sem enginn hefur sýnt fram á standist skoðun.

Ef einhver varpar því fram að strandveiðar séu eitthvað óhagkvæmari en aðrar veiðar þá ætti hinn sami að þurfa að sína fram á það með skýrum hætti þar sem allt er tekið saman. Svo mörg eru þau orð….

PS: Það er hins vegar þjóðhagslega nauðsynlegt að fara vel ofan í saumana á kvótakerfinu svo öll óhagkvæmni fyrir þjóðina verði tekin úr því kerfi ásamt því svindli sem á sér stað þar. Margfalda þarf eftirlit Fiskistofu bæði í land og sjóeftirliti og sjávarútvegurinn á að vera sá sem greiðir fyrir það. Greininni er ekki treystandi til að hafa eftirlit með sjálfri sér… Það þekkja allir sem í greininni hafa starfað!

Höfundur er virðiskeðjufræðingur og smábátasjómaður.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: