- Advertisement -

Afhroð í Afganistan

Guðmundur Auðunsson skrifar:

Í gegnum NATO hafa Íslendingar tekið beinan þátt í hersetunni í landinu og það er því nauðsynleg  að taka á móti flóttamönnum sem munu nú leggja á flótta til að bjarga lífi sínu.

Árið 1978 komst ríkisstjórn vinstrisinna til valda í Afganistan. Samfélagið í landinu var á þeim tíma mjög klofið, framfarasinnar voru sterkir í borgunum en íhaldssamir íslamistar réðu öllu í sveitunum. Þeir síðarnefndu gripu til vopna gegn stjórninni í Kabul og borgarastyrjöld hófst í landinu. Eftir panik og valdabaráttu innan ríkisstjórnarinnar hófst innrás Sovétríkjanna inn í landið í desember 1979. Stanslaus stríðsrekstur hófst í landinu og má segja að hann standi enn.

Það varð ógæfa Afganska fólksins að verða leiksoppur erlendra stórvelda. Ég man það sem unglingur að ég var mjög á móti innrás Sovétmanna inn í landið. Sumir sem ég þekkti gagnrýndu þessa skoðun mína, benntu á framfarir í landinu, sérstaklega í réttindum kvenna sem voru áberandi í ríkisstjórninni sem Sovétmenn studdu, voru háskólaprófessorar og jafnvel hershöfðingjar. En það fór sem ég óttaðist, afskipti Sovétmanna af landinu gáfu Bandaríkjunum tækifæri til að hefja proxi stríð með því að styðja islömsku öfgamennina með vopnum og milljörðum bandaríkjadala. Á vesturlöndum voru þessir öfgamenn (bara karlmenn) kallaðir „Freedom Fighters“. Pakistan og Sádi Arabía studdu skæruliðana líka og þúsundir öfgamanna frá hinum islamska heimi tóku þátt í bardögunum. Notaðist Bandaríkjastjórn við ofstækismann frá Sádi Arabíu að nafni Osama Bin Laden sem milligöngumann milli stríðsaðilanna og stuðningsmanna þeirra. Þessir útlendu bardagamenn eru nú dreifðir út um allan heim og eru kjarnin í hryðuverkasamtökum ofsatrúarmanna. Stríðsreksturinn reyndist Sovétmönnum dýr og margir hafa haldið því fram að þetta hafi verið eitt af því sem leiddi til hruns risaveldisins. Yfirgaf sovéski herinn landið með skottið milli lappanna árið 1989 en leppstjórnin þeirra hélt þó völdum í höfuðborginni í þrjú ár í viðbót, sem er allavega miklu lengra en leppstjórn Bandaríkjanna entist.

Þegar  íslamistarnir komust til valda hófu þeir nær samstundis að berjast innbyrðis. Leiddi það loks til að öfgafyllsti armur þeirra, Talibanarnir, komust til valda. Hjá þeim bjó fyrrverandi vinur Bandaríkjamanna, Osama Bin Laden, sem átti eftir að verða einn alræmdasti hryðjuverkamaður sögunnar. Eftir hryðjuverkaárásina á Tvíburaturnana í New York 2001 þá var komið að Bandaríkjunum að senda innrásarlið inn í Afganistan. Nú 20 árum síðar og með billjóna (e. trillion) Bandaríkjadala kostnaði er bandaríski herinn farinn með skottið á milli lappanna og það tók bara nokkrar vikur fyrir leppstjórn þeirra að falla. Talibanar eru komnir aftur til valda og það eina sem her Bandaríkjamanna skilur eftir sig eru tugþúsundir Afgana sem nú eru í lífshættu fyrir að hafa unnið með innrásarhernum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Afganir verða að fá að ráða sér sjálfir í friði

Afganistan er grafreitur heimsvelda. Bretar brenndu sig á því undir lok 19. aldar þegar þeir réðust án árangurs inn í Afganistan. Eftir þá útreið hófst langdregið dauðastríð heimsveldisins. Sovétríkin hrundu skömmu eftir innrás sína um hundrað árum síðar og nú eru það Bandaríkin sem eru niðurlægð af Afgönum. Má færa sterk rök fyrir því að þetta marki lokakaflann í sögu bandaríska heimsveldisins. Það sem hægt er að læra af þessu er að það er ekki hlutverk heimsvelda að hlutast til í mál annara landa. Það er hlutverk Afgana sjálfra að losa sig við þessa kvennhatandi ofsatrúarstjórn aftan úr miðöldum. Og ég hef fulla trú á því að Afganir muni gera það fyrr og síðar. Það sem stendur eftir er að inngrip Sovétríkjanna og Bandaríkjanna í innanríkismál Afganistan hefur ekkert gert annað en að þrýsta íbúunum í fang ofsatrúarmanna. Má færa sterk rök fyrir því að ef risaveldin hefðu sleppt því alveg að skipta sér að málefnum Afgana þá væru þeir nú í mun betri stöðu en þeir eru í dag.

Íslendingar verða að taka á móti afgönskum flóttamönnum.

Bandaríkin eru ekki ein ábyrg fyrir stöðunni í Afganistan. Í gegnum NATO hafa Íslendingar tekið beinan þátt í hersetunni í landinu og það er því nauðsynleg  að taka á móti flóttamönnum sem munu nú leggja á flótta til að bjarga lífi sínu. Það er ekki einungis það rétta í stöðunni. Það er skylda okkar.

Höfundur er oddviti Sósíalistaflokks Íslands í Suðurkjördæmi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: