- Advertisement -

Ágreiningurinn er Sjálfstæðisflokksins

Sigurjón Magnús Egilsson skrifar:

„Það ætti að vera stjórnmálaflokkunum öllum umhugsunar- og áhyggjuefni, í hve ríkum mæli krafturinn í þjóðfélagsumræðum finnur sér farveg utan flokkanna. Þeir voru áður helzti vettvangur þessara umræðna en koma þar nú lítið við sögu. Í dag eru þeir að langmestu leyti vettvangur fyrir tilkynningar frá forystusveitum flokkanna,“ þannig skrifar Styrmir Gunnarsson.

Það fólk sem harðast berst gegn áformum um samþykkt þriðja orkupakkans kemur fyrst og síðast úr Sjálfstæðisflokki. Opinberi ágreiningurinn er Sjálfstæðisflokksins. Hversu lengi þolir gamli valdaflokkurinn þann ágreining sem er meðal flokksfólks? Er núverandi forysta hæf til að sætta þau ólíku sjónarmið sem nú eru svo sýnileg? Nei, alls ekki.

Innan Sjálfstæðisflokksins er ekki bara ágreiningur vegna orkupakkans. Gröfturinn vellur upp. Afstaða Bjarna Benediktssonar og flestra annarra þingmanna flokksins til Icesave er nú rifjuð upp. Endurtekið. Hún er geymd en ekki gleymd.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins: „Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“

Þetta var samþykkt á síðasta landsfundi. Nú þykir mörgum sem unnið sé þvert á raunverulegan vilja flokksins. „Hvar fer stefnumörkun þeirra fram? Í þröngum hópum þingmanna og/eða forystusveita? Þeir hópar virðast ekki taka mark á samþykktum landsfunda eða flokksþinga,“ skrifar Styrmir.

Ágreiningurinn innan Sjálfstæðisflokksins er opinber. Hann er svo mikill að ekki hefur tekist að lægja öldurnar. Flokkurinn verður níutíu ára í haust. Komandi landsfundur gæti orðið sögulegur. Forystusveit flokksins og þingmönnum hans hefur verið hótað.

Flokksfélagar segjast ætla, að óbreyttu, að hætta stuðningi sínum verði vilji þingflokksins í orkupakkamálinu ofan á.

Meðan logandi átökin í Sjálfstæðisflokki eru öllum sýnileg hefur forystu Framsóknar og Vinstri grænna tekist að mestu að halda átökum sinna flokka að mestu leyndum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: