- Advertisement -

Allt mun loga í kjara- og vinnudeilum

Bjarni Benediktsson og kjararáð eru harðlega gagnrýnd. Orð Bjarna um höfrungahlaupið virka sem olía á eld.

Hér fer sýnishorn af skrifum fólks á Facebook  vegna kjararáðs og orðum Bjarna Benediktssonar um höfrungahlaup og afleiðingum þess.

Mikið bull í gangi

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness: „Bjarni Ben segir að höfrungahlaupið sem hafi tíðkast á íslenskum vinnumarkaði ekki ganga upp. Halló, hvaða höfrungahlaup er maðurinn að tala um?

Til að sýna hversu mikið bull er hér í ganga þá vil ég rifja upp að launataxtar verkafólks hækkuðu um einungis níu þúsund krónur á mánuði frá og með 1. maí og lágmarkslaun um 20 þúsund og nema þau núna 300 þúsundum á mánuði.

Fjármálaráðherra getur fjandakornið ekki verið að tala um höfrungahlaup hjá íslensku verkafólki sem er á launum sem ekki duga fyrir lágmarksframfærslu.

Bjarni lítið ykkur nær en á síðustu 12 mánuðum hafa ríkisforstjórar hækkað um 24% að meðaltali og sumir ríkisforstjórar eins og t.d. forstjóri Landsvirkjunar og bankastjóri Landsbankans hækkuðu um 1,2 milljónir á mánuði. Eða sem nemur fjórföldum lágmarkslaunum verkafólks og ég vil líka minna á að á síðustu 20 árum hafa lágmarkslaun hækkað um rúm 200 þúsund en núna koma ríkisforstjórar og taka 1,2 milljón á einu bretti!

Nei, Bjarni Ben græðgin og hið skefjalausa höfrungahlaup er ekki að finna hjá almennu launafólki heldur hjá efrilögum samfélagsins og núna hefur almenningur fengið nóg!“

Bjarni stattu við stóru orðin

Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins: „Já takk Bjarni stattu nú einu sinni við stóru orðin og birtu þær forsendur sem launanefndin þín reisti ákvörðun sína á um að hækka launin þín og efsta lagsins um 43% á sama tíma og þú býður ljósmæðrum einungis 4,27%.“

Vilja þriðjung af kaupi Bjarna

Eiríkur Jónsson, fyrrverandi formaður Kennarasambands Íslands: „Mér synist að kröfur ljósmæðra hljóði uppá ca 50% af þingfararkaupi eða ca 33% af launum fjármálaráðherra. Er það óbilgjörn krafa? Ég óska VG til hamingju með að bera ábyrgð á fjármálaráðherranum og verkum hans.“

Beinlínis kjánalegt

Úlfar Hauksson, stjórnmálafræðingur og vélstjóri: „Allt tal Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um „höfrungahlaup“ almenns launafólks á vinnumarkaði er krúttlegt. Það var jú hann og hans hirð sem hóf þennan skemmtilega leik. Stjórnmálamenn og stjórnendur stofnana og fyrirtækja hafa skammtað sér launahækkanir upp á tugi prósenta og hundruði þúsunda á mánuði. Það er beinlínis kjánalegt af þessum aðilum að halda og ætla að almennt launafólk sætti sig við þúsundkalla. Flokkast eiginlega undir heimsku. Fullkomin firring. Borðleggjandi að hér mun allt loga í kjara- og vinnudeilum næstu misserin. Stjórnendur og stjórnmálamenn kveiktu þá elda. Hófu höfrungahlaupið með risa stökki vilji fólk nota þá lýsingu.“

Þingmenn sleiktu út um

Jón Magnússon, lögmaður og fyrrverandi alþingismaður: „Það er sérkennilegt þegar fjármálaráðherra skrifar besta vini sínum og veiðifélaga, formanni stjórnar Landsvirkjunar og Kjararáðs bréf vegna óhóflegra launahækkana ríkisforstjóra. Þurfti ekki að taka í taumanna þegar Kjararáðsúrskurðurinn kvað á um ofurlaunahækkun til stjórnmálamanna og æðstu embættismanna?

Þá sleiktu allir þingmennirnir út um eins og kettir í kringum rjómaskál. Þeir eru allir samábyrgir og siðlausir þegar kemur að því að mylja undir sig og sína.

Svo er það einstök stjórnviska með öfugum formerkjum, að fela stjórnum ríkisstofnana að ákveða laun forstjóranna. Það hlaut að enda út um hollt og móa.

En þá er gott að skrifa bréf til vina sinna alla vega til að sýnast.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: