- Advertisement -

Alþingi: Stefán Vagn þakkaði Jóni Gnarr

„Hver dagur skiptir máli. Við núverandi stöðu verður ekki unað.“

Stefán Vagn Stefánsson.

„Þegar ég sóttist eftir því að komast í störfin í dag var ég með ákveðið málefni í huga sem mig langaði að ræða en hins vegar þegar ég las pistil háttvirts þingmanns Jóns Gnarrs fann ég mig knúinn til að koma hérna upp og halda áfram með það brýna málefni sem kom fram í umræddum pistli og snýr að meðferðarrýmum og öryggisvistun fyrir ungmenni. Ég vil einnig þakka háttvirtum þingmanni fyrir að vekja athygli á þeirri stöðu sem uppi er í málaflokknum en nú er svo komið að ekkert húsnæði virðist koma til greina annað en lögreglustöðin við Flatahraun í Hafnarfirði,“ sagði Stefán Vagn Stefánsson, einn af þingmönnum Framsóknar.

„Sömuleiðis er það staðreynd að mörgum meðferðarúrræðum hefur verið lokað á síðustu árum og þar á meðal Háholti í Skagafirði. Í áraraðir var rekið meðferðarheimili í Háholti í Skagafirði en forsvarsmenn Barnaverndarstofu tóku ákvörðun árið 2017 um að loka heimilinu og var það gert án samráðs við sveitarfélagið. Sá sem hér stendur var einmitt formaður byggðarráðs sveitarfélagsins á þeim tíma og þekkir málið ágætlega. Góður árangur hafði náðst á Háholti og sveitarfélagið m.a. farið í breytingar á húsnæðinu 2014 með það fyrir augum að það hentaði til þess vera með unglinga í öryggisvistun og bregðast þannig við ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Nú stendur húsið autt og til stendur að selja það,“ sagði Stefán Vagn.

„Ég skora á hæstvirtan ráðherra að setja sig í samband við forsvarsmenn sveitarfélagsins og koma húsnæðinu, sem hefur einmitt verið hannað til þess m.a. að öryggisvista unglinga, aftur í notkun og leysa þar með þá grafalvarlegu stöðu sem uppi er í málaflokknum. Húsnæðið er til staðar og þekking á rekstri fyrir hendi. Hver dagur skiptir máli. Við núverandi stöðu verður ekki unað.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: