- Advertisement -

Annar áratugur 21. aldar: Fjórflokkurinn skreppur saman í hægri sveiflu

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.
Síðasti áratugur einkenndist því af tapi vinstri flokka og upplausnar hægri flokka, sem leitt hefur til aukins samanlagðs fylgis þeirra.

Í upphafi áratugarins, sem var að enda, hafði Sjálfstæðisflokkurinn sextán þingmenn og hann hefur enn sextán þingmenn. Framsókn var með níu þingmenn en er nú með átta. Samt hafa báðir þessir flokkar klofnað. Miðflokkurinn gekk úr Framsókn og sótti mikið fylgi til Sjálfstæðisflokksins og Viðreisn gekk úr Sjálfstæðisflokknum og sótti fylgi út fyrir hann, inn af miðjunni. Og meðal þess fólks sem kom að stofnun Flokks fólksins var mikið af fólki sem hafði verið virkt í starfi innan Sjálfstæðisflokksins. Það má því segja að það sé merkilegt að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn séu enn með nánast sama þingmannafjölda og í upphafi annars áratugar þessarar aldar, því flokkar sem hafa klofnað frá þessum tveimur stofnanaflokkum eru með fimmtán þingmenn í dag.

Þessir þingmenn hafa komið í stað þeirra þingmanna sem Samfylkingin og VG hafa misst. Í upphafi áratugarins hafði Samfylkingin tuttugu þingmenn en er nú með sjö. VG hafði fjórtán þingmenn en er nú með ellefu. Samanlagt hafa þessir flokkar, sem eiga rætur í verkalýðshreyfingunni á fyrri hluta síðustu aldar, misst sextán þingmenn af þeim sem 34 sem þeir höfðu við upphaf nýliðins áratugar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 42,1% fylgi í desember 2009 en aðeins 20,0% í desember 2019.

Síðasti áratugur einkenndist því af tapi vinstri flokka og upplausnar hægri flokka, sem leitt hefur til aukins samanlagðs fylgis þeirra. Í upphafi áratugarins var Borgarahreyfingin með fjóra þingmenn en nú hafa Píratar sex. Það er því ekki mikið að frétta af nýsköpun á miðjunni; nýir flokkar eiga flestir rætur hægra megin og það eru slíkur flokkarnir sem hafa hoggið í fjórflokkinn. Fjórflokkurinn var með 59 þingmenn í upphafi áratugarins en er nú með 42; 17 þingmenn fjórflokksins hafa fallið fyrir borð.

En þar sem kosið var átta mánuðum fyrir upphaf áratugarins og fjórtán mánuðum fyrir lok hans, er kannski betra að sjá breytingarnar á fylgi flokkanna á þessum áratug með því að skoða niðurstöður skoðanakannana. Við skulum nota MMR. Þar má sjá miklar breytingar.

Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 42,1% fylgi í desember 2009 en aðeins 20,0% í desember 2019. Meira en helmingur fylgisins var floginn á brott. Samfylkingin mældist með 18,2% í desember 2009 en 14,4% í nýliðnum desember, einn fimmti stuðningsmanna hafði snúið baki við flokknum. VG mældist með 17,5% í desember 2009 en 10,3% í desember 2019, tveir af hverjum fimm stuðningsmönnum höfðu gefist upp. Framsókn mældist með 15,8% í desember 2009 en í desember í fyrra var fylgið 8,3%, rétt tæpur helmingur stuðningsfólksins hefur snúið sér annað.

Þetta eru magnaðar breytingar og ekki í neinum takti við þá almennu trú að íslenskir kjósendur láti allt yfir sig ganga. Í upphafi áratugarins sögðust 93,6% styðja einhvern af fjórflokknum en aðeins 53,0% í lok hans, 40% kjósenda, sem áður bundu trúss sitt við fjórflokkinn fyrir tíu árum, gerir það ekki lengur.

Ein leið til að meta breytingarnar er að skoða fylgisbreytingar, hvað flokkar og framboð bættu við sig eða misstu frá sér af fylgi frá upphafi til loka áratugarins. Sá listi er svona:

  • Miðflokkurinn: +14,3 prósentur
  • Píratar: +11,8 prósentur
  • Viðreisn: +10,5 prósentur
  • Sósíalistaflokkurinn: +5,2 prósentur
  • Flokkur fólksins: +4,0 prósentur
  • Borgarahreyfingin: –2,7 prósentur
  • Samfylkingin: –3,8 prósentur
  • VG: –7,2 prósentur
  • Framsókn: –7,5 prósentur
  • Sjálfstæðisflokkurinn: –22,1 prósentur

Ef við skiptum flokkunum eftir hægri og vinstri ás, gæti skiptingin verið svona:

  • Hægri (Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn, Miðflokkur) var með 42,1% í upphafi áratugarins en nú með 44,8% – hefur unnið lítillega á.
  • Mið-hægri, þ.e. hægri með félagslegri taug (Framsókn, Flokkur fólksins), var með 15,8% en er nú með 12,3% – hefur gefið eftir.
  • Ný-miðja, flokkar sem afneita hægri/vinstri (Borgarahreyfingin, Píratar) voru með 2,7% en eru með 11,8% – hefur unnið mikið á.
  • Mið-vinstri (Samfylkingin, VG) var með 35,7% en er með 24,7% – hefur tapað miklu.
  • Vinstri (Sósíalistar) voru ekki með en mælast nú með 5,2% – hafa unnið á.

Áratugurinn var deigla sem veikti fjórflokkinn mikið.

Það var því létt hægri bylgja á síðasta áratug. Eða eigum við að segja vinstri veiking? En þetta eru aðeins mælingar milli tveggja punkta. Á milli þeirra gerðist ýmislegt sem ekki var orðið til við upphaf áratugarins en dáið við lok hans; fyrirbrigði eins og Björt framtíð, Dögun, Flokkur heimilanna, Lýðræðisvaktin, Samstaða og alls konar. Það var líka haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrá á áratugnum, þó engin merki séu enn um að Alþingi ætli að beygja sig undir þá niðurstöðu. Þær línur sem ég hef dregið milli þessara tveggja punkta segir því ekki sögu áratugarins, aðeins breytingarnar frá upphafs- að lokastöðunni. Áratugurinn var deigla sem veikti fjórflokkinn mikið, deigla sem virtist ætla að laða fram mikla nýsköpun en sem losaði kannski fyrst og fremst um flokkshollustu og ýtti undir klofningsframboð innan úr fjórflokknum, og þá fyrst og síðast hægra megin. Og sú upplausn færði fylgið til hægri.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: