- Advertisement -

Áróðursmeistarar halda því fram að verðbólgan sé kjarasamningunum að kenna

Marinó G. Njálsson:

ÉG VEIT EKKI HVAÐ ÞEIR ÆTLA AÐ GERA VIÐ ALLAN AUÐ SINN, ÞVÍ EKKI GETA ÞEIR EYTT HONUM EÐA TEKIÐ HANN MEÐ SÉR Í GRÖFINA.

Hver ætli séu raunveruleg áhrif kjarasamninga í lok síðasta árs og fyrri hluta þessa árs á verðbólguna? Einhverra hluta vegna vill ákveðinn hópur áróðursmeistara halda því fram að verðbólgan sé kjarasamningunum að kenna.

Fyrst er það að nefna, að launakostnaður er að jafnaði 20% af rekstrarkostnaði fyrirtækja, að sjálfsögðu misjafnt eftir stærð þeirra og gerð. Bara út frá því væri hægt að reikna það út, að 10% hækkun launakostnaðar gæti valdið 2% hækkun verðs vöru og þjónustu. Séu tölur Hagstofu um breytingar á undirvísitölum vísitölu neysluverðs skoðaðar yfir síðustu sex mánuði (sem er mitt á milli kjarasamninga SGS, VR og fleiri, annars vegar og Eflingar hins vegar), þá kemur í ljós að flestir liðir hafa hækkað meira en fyrrgreind 2%. Matur hækkaði um 6,1%, föt og skór um 3,1%, húsnæði, hiti og rafmagn um 4,9%, húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. um 8,2%, liðurinn heilsa um 3,4%, ferðir og flutningar um 4,1% (þar af flutningar um 31,2%), tómstundir og menning um 3,4%, hótel og veitingastaðir um 8,3% (þar af gisting um 37,2%) og aðrar vörur og þjónusta um 4,2%. Aðeins tveir liðir hækkuðu ekkert, þ.e. póstur og sími lækkaði um 4,6% og liðurinn menntun stóð í stað.

Ef við skoðum síðan sérstaklega þá liði sem vega þyngst í mælingu á vísitölu neysluverðs, þ.e. matur vegur 14,9%, húsnæði, hiti og rafmagn vega 28,6%, ferðir og flutningar vega 15,2%, tómstundir og menning vega 9,9% og aðrar vörur og þjónusta vega 7,3%, þá kemur í ljós að ólíklegt er að kjarasamningar hafi haft mikil áhrif á þessa liði til hækkunar. Ég veit ekki hvernig menn fá það út, að hækkun vöruverðs um 6,1% sé því að kenna að kjarasamningar hafi hækkað rekstrarkostnað um 2% vegna hærri launakostnaðar (sem var svo í reynd 1%).

Sama á við um húsnæðisliðinn.

Mig langar að birta nokkrar tölur úr árs- og árshlutareikningum Haga síðustu þrjú uppgjör fyrirtækisins. Samkvæmt uppgjöri fyrir 3. ársfjórðung 2022/23 (1.9.-30.11) var launakostnaður fyrirtækisins 3.578 m.kr., næsta ársfjórðung á eftir (1.12.2022-28.2.2023) var hann 3.886 m.kr. og á fyrsta ársfjórðungi þessa árs (1.3.-31.5.) var hann 3.932 m.kr. Það þýðir að launakostnaður hækkaði um 364 m.kr. eftir að kjarasamningar voru gerðir eða um rétt rúmlega 10%. Sem hlutfall af veltu var launakostnaðurinn hins vegar alltaf vel undir 10% (ekki um 20% eins og hjá fyrirtækjum að jafnaði) og hækkun launakostnaðar frá 3. ársfjórðungi síðasta árs til 1. ársfjórðungs þessa árs reyndist 0,9% af veltu á 3. ársfjórðungi. Fyrirtækin innan Haga hefðu því aðeins þurft að hækka vöruverð um tæpt 1% til að mæta auknum launakostnaði vegna kjarasamninga, en líklega hækkaði vöruverðið um 6%, eins og matvöruverð gerði að jafnaði. (Hafa verður þó í huga, að Olís er innan Haga og fellur ekki undir mælingar á matvöruverði í vísitölunni. Sama á við um nokkrar aðrar verslanir en velta þeirra samanborið við Bónus og Hagkaup er frekar lítil.) Líklegasta ástæðan fyrir hækkun matvöruverðs hjá fyrirtækjum innan Haga voru annars vegar hærri álagning og hins vegar hærra innkaupsverð.

Ég hefði allt eins geta tekið aðrar stórar keðjur sem gína yfir innlendum neytendamarkaði. Niðurstaðan hefði nokkuð örugglega orðið eins. Það er kjaftæði að kjarasamningar séu að halda verðbólgunni uppi.

Sama á við um húsnæðisliðinn. Eftir að kjarasamningar voru gerðir hefur dregið úr hækkunum húsnæðisverðs og það lækkaði raunar á milli maí og júní (þ.e. vísitala húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu). Ég verð hins vegar að viðurkenna, að ég er ekki að skilja hvernig vísitala reiknaðrar húsaleigu er reiknuð, því hvernig þessi liður getur lækkað á sama tíma og vaxtakostnaður hækkar og hækkar. Þegar Seðlabankinn hækkaði vexti sína um 1% í maí, þá olli það hátt í 13% hækkun vaxtakostnaðar hjá fólki með breytilega vexti og hækkun vísitölu húsnæðiskostnaðar um 0,98% í maí, sem birtist á greiðsluseðlum í júlí, olli hækkun 40 m.kr. húsnæðisláns um 392.000 kr. meðan breyting á vísitölu húsnæðisverðs breytti engu. En eitt er alveg víst, að síðustu kjarasamningar eru ekki sökudólgar þegar kemur að húsnæðisverð.

…með fáránlegri hækkun vöruverðs.

Hækkun á ferðum og flutningum er heldur ekki tengd kjarasamningum. Þetta eru árstíðabundnarsveiflur sem tengjast því að flugfargjöld eru dýrari eftir því sem færri sæti eru eftir í flugvélum. Vísitala þessa liðar var t.d. rúmlega 190 stig í júlí í fyrra og er 197 stig núna, en lækkaði mikið þess á milli. Það þarf mikla hugmyndaaugði til að búa til tengsl þessa liðar og síðustu kjarasamninga.

Læt þetta duga, en um aðra liði gilda lík rök. Hækkun launakostnaðar er ekki að valda þeirri hækkun vöruverðs sem var síðustu 6 mánuði. Ástæðanna er að leita annað, m.a. í hækkuðu innkaupsverði og hærri álagningu.

Ég veit ekki hvernig einhverjum dettur í hug, að kjarasamningar hluta vinnandi fólks á Íslandi hafi áhrif á verðlag langt umfram þann kostnaðarauka sem fyrirtækin urðu almennt fyrir, en umræðan er hættuleg því nú eru fjölmargir að hrópa þetta á torgum, en þó aðallega í fjölmiðlum. Farið er að kalla eftir vaxtahækkun hjá Seðlabankanum til að sporna gegn óframkomnum kröfum launþegahreyfinga sem munu reyna hvað þær geta að sækja aftur til fyrirtækja, það sem þau hafa tekið af fólki með fáránlegri hækkun vöruverðs.

Sú verðbólga, sem við erum að kljást við í dag, hefur verið kölluð græðgisbóla, því þau fyrirtæki sem ráða mestu um þróun vöruverðs eru að auka hagnað sinn úr öllu hófi. Þetta sést t.d. á því, að arðsemi eiginfjár hjá Högum var á síðasta fjárhagsári 15,9%. Þetta er fyrirtæki á neytendavörumarkaði með stóran hluta landsmanna í viðskiptum og það er að taka inn 15,9% arðsemi á eigið fé. Með 8% arðsemi eiginfjár, sem einu sinni þótt svakagóð, væri hægt að lækka vöruverð um ca. 5%.

Nei, þeir munu hækka álagningu sína…

Látið ykkur svo ekki detta í hug, að þegar innkaupsverð vöru lækkar, þá muni heildsalar og smásalar skila þeirri hækkun til neytenda, samfélaginu til góðs og eflingar stöðugleika. Nei, þeir munu hækka álagningu sína og svo furða sig á því, að almennt launafólk telji að sér vegið og vilji leiðréttingu launa sinna. Það er nefnilega einhvern veginn þannig í þessu samfélagi (vissulega orðið að sjúkdómi um öll Vesturlönd), að græðgi þeirra efnuðu er þá lifandi að drepa og þau samfélög sem þeir búa í. Ég veit ekki hvað þeir ætla að gera við allan auð sinn, því ekki geta þeir eytt honum eða tekið hann með sér í gröfina. En vilji þeir græða meira, þá er ofboðslega sniðugt að hækka laun þeirra sem stuðla að auði þeirra, því meiri kaupmáttur almúgans mun leiða til stöðugri auðsöfnunar hinna ríku.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu sinni. Greinin er birt hér með leyfi höfundar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: