- Advertisement -

Ásgeir svarar fyrir sig

Ég hef heldur engan áhuga á því að lýsa yfir eignarrétti á einu eða neinu sem tengist Landnámu. Þá bók á þjóðin öll saman.

´Ásgeir Jónsson skrifaði:

Síðustu dagar hafa verið mjög sérstakir hjá mér þar sem ég hef verið þjófkenndur í fyrsta skipti á ævinni. Ég hef ekki viljað bregðast við fyrr en ég hefði fengið ráðrúm til þess að lesa bók Bergsveins Birgissonar Leitin að svarta víkingnum og bregðast efnislega við þeim ásökunum sem hann hefur sett fram. Ég mun því fjalla ítarlega um málið síðar. Ég vil þó nefna nokkra hluti nú þegar.

Bók Bergsveins Birgissonar Leitin að svarta víkingnum er ekki hefðbundin sagnfræði. Hún er það sem höfundur kallar sjálfur í formála „röksaga“ eða „ímyndun grundaða á þekkingu“. Þá eða eins og segir í eftirmála að verkið sé „formtilraun, viðleitni til að brúa bilið milli fræðimanns og rithöfundar og nota bæði heilahvelin samtímis. Útkoman er blendingur.“ Í þessu samhengi má einnig halda því til haga að í ritdómi um bókina sem Gunnar Karlsson ritaði í Sögu Tímarit Sögufélagsins árið 2019 eru gerðar athugasemdir við heimildanotkun og túlkanir bókarinnar og segir að ritverk af þessum toga séu „býsna ósambærileg við sagnfræði“. Gunnar telur það alls ekki augljóst að hún geti talist fræðirit. Ég fæ heldur ekki betur séð en að það viðhorf sé ríkjandi meðal annarra sagnfræðinga. Ég hef ekki haft tíma til að kynna mér ritdóma um bókina á öðrum tungumálum. Ég vil taka sérstaklega fram eftir að hafa lesið bók Bergveins að hún er mjög skemmtileg og upplýsandi um margt – og að mínu áliti frábært framtak af hans hálfu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

ins og ég les Landnámu þá kom hann hingað til lands á efri árum sem hálfgerður flóttamaður.

Bók Bergsveins Leitin að svarta víkingnum er saga Geirmundar heljarskinns landnámsmanns. Áður en lengra er haldið er ágætt að gera grein fyrir því að ég er í grundvallaratriðum ósammála niðurstöðum Bergveins í þessari bók sem kristallast í setningunni „Geirmundur markar upphaf íslensku þjóðarinnar“ sem hann setur fram. Ég álít að Geirmundur hafi skipt litlu sem engu máli fyrir landnám Íslands heildarsamhengi. Ég hef enga trú á því að hann hafi byggt upp viðskiptaveldi með sölu á rostungsafurðum þó hann hafi án efa látið þræla sína stunda rostungsveiðar. Eins og ég les Landnámu þá kom hann hingað til lands á efri árum sem hálfgerður flóttamaður. Ég álít heldur ekki að rostungsveiðar hafi skipt miklu máli eftir að landnám Íslands hófst fyrir alvöru þó þær kunni að hafa skapað hvata fyrir fyrstu Íslandsferðunum.

Hvaða mína bók varðar Eyjan hans Ingólfs þá er hún ekki fræðirit og hefur aldrei verið kynnt sem slík. Hún er til að mynda ekki með heimildaskrá. Ég get þeirra heimilda sem ég nota í neðanmálsgreinum en þessa bók má alls ekki líta á sem tæmandi fræðirit um landnám Íslands. Sagnfræðingar hafa ágætis orð fyrir bækur af þessu tagi sem „leikmannsþankar“. Þessi bók er sprottin upp af einlægum söguáhuga mínum.

Mig langar til þess að fylgja bókinni eftir með því að rita fræðigreinar er tengjast hagsögu Íslands og það voru þær hugmyndir sem mig langaði til þess að kynna á málstofu í Háskóla Íslands – en enn sem komið eru þetta bara hugmyndir sem ég hef ekki ritað niður. Þá er ég ekki heldur að slá eign minni á eitt eða neitt í Íslandssögunni með því að gefa út þessa bók. Í formála segir aðeins: „Ég vona að þessi veikburða tilraun af minni hálfu verði lesandanum til einhvers fróðleiks og skemmtunar“. Í eftirmála segir aðeins að ég vonist til þess að bókin verði „upphaf að nýrri umræðu landnám Íslands“. Svo má segja að sú ósk hafi sannarlega ræst þó ósinn sé alls ekki eins og uppsprettuna dreymdi.

…ég hef aldrei áður verið vændur um stuld.

Ég vil líka taka fram að ég vonast ekki eftir neinum efnalegum ávinningi með ritun þessarar bókar. Ég verð aðeins ánægður ef bókin stendur undir framleiðslukostnaði.

Eyjan hans Ingólfs er því aðeins veikburða tilraun af minni hálfu til þess að setja fram tilgátu um hvernig að þjóðskipulag myndaðist á Íslandi. Rostungsveiðar eru algert aukaatriði í þeirri frásögn. Ég fæ ekki betur séð en að að bækur okkar Bergsveins séu ákaflega ólíkar bæði hvað varðar nálgun, umfjöllun og niðurstöður. Ég held að öllum verði það ljóst sem lesa báðar bækurnar.

Ég vil í lokin aðeins taka fram að ég hef aldrei áður verið vændur um stuld. Enda væri það ákaflega heimskulegt stöðu minnar vegna að reyna slíkar kúnstir með bók líkt og Leitina að Svarta víkingnum sem var metsölubók á Íslandi. Ég hef heldur engan áhuga á því að lýsa yfir eignarrétti á einu eða neinu sem tengist Landnámu. Þá bók á þjóðin öll saman.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: