- Advertisement -

Átök um Samherjarannsókn

Oddný Harðardóttir skrifar:

Héraðssaksóknari kvartaði undan skorti á mannskap til að rannsaka Samherjaskjölin í umfjöllun Kveiks í gærkvöldi (18. febrúar 2021). Í umræðum um fjármögnun eftirlitsaðila vegna Samherjaskjalanna hefur fjármála- og efnahagsráðherra ítrekað sagt að eftirlitsstofnanir séu ekki undirfjármagnaðar og að þær muni fá fjármagn úr varasjóðum ef þörf sé á en hefur greinilega ekki staðið við þau orð. Og fyrir vikið tefst rannsókn á Samherjaskjölunum. Var það meiningin?

Umræðan í þinginu 25. nóvember 2019 var svona á milli mín og fjármálaráðherra um málið.

Oddný Harðardóttir: „Það er algerlega fyrirséð að héraðssaksóknari og skattrannsóknarstjóri þurfa á auknum fjármunum að halda til að sinna því stóra máli sem Samherjamálið er, sem teygir sig til í það minnsta þriggja landa, til bankastarfsemi, til skattaskjóla, til flókinna millifærslna. Stofnanirnar hafa sjálfar sagt að þær þurfi aukið fjármagn og það þarf ekki annað en að líta á bunkana sem eru á borðum embættanna af óafgreiddum málum til að sjá að þau verða að fá aukna fjármuni til að sinna starfi sínu og þessari flóknu rannsókn. En hæstvirtur fjármálaráðherra vísar í varasjóði sem einungis má nota á árinu 2020 fyrir eitthvað sem er algjörlega ófyrirséð og ekki var hægt að gera ráð fyrir í fjárlögum. Þetta er alvarlegt mál og við háttvirtir þingmenn þurfum að taka þetta til okkar.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra svarar: „Það er auðvitað ekkert annað en pólitísk tækifærismennska sem birtist okkur hér í þingsal þegar menn fara fram með þeim hætti að segja ríkisstjórnina, fjármálaráðherrann, ætla að fjársvelta stofnanir þegar við höfum margítrekað sagt að við höfum tekið erindin til alvarlegrar athugunar, við höfum tryggt fjármögnun fyrir skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra nákvæmlega í samræmi við það sem um var beðið og að beiðni héraðssaksóknara sé í eðlilegum farvegi. Að menn leyfi sér að koma hér upp í þingsal í pólitískri tækifærismennsku, eins og Samfylkingunni er reyndar dálítið tamt að gera, er bara dapurlegt fyrir flokkinn, dapurlegt fyrir þingið, dapurlegt fyrir þessa mikilvægu umræðu.“

Svo mörg voru þau orð!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: