Kristján Hreinsson skrifar um Megas, afmælisbarn dagsins:

Í dag finn ég fyrir skelfilegri skömm. Það er sambland af sorg og reiði sem hefur sest að í hjarta mínu. Ég kynnti mér á sínum tíma þá sögusögn sem setti Megas út af sakramentinu. Ég skoðaði alla kima þeirrar sögusagnar og hvergi gat ég séð að hægt væri að sanna sekt hans. Engu að síður hefur þjóð mín dæmt Megas til þagnar.
Í dag skammast ég mín fyrir þessa þjóð sem lætur réttlæti lönd og leið en er til í að samþykkja hæpinn dóm sem er ekkert annað en tilbúningur á markaðstorgi hégómans, þar sem slefberar rætninnar stýra því sem við köllum dómstól götunnar. Mítú-bylgjan hefur ráðist illa að mörgum manninum. Sumir hafa við illan leik náð að reisa við æru sína. Megas er hógvær og hjartahreinn maður, hann hefur engan hug á argaþrasi og er sjálfsagt fyllilega meðvitaður um sinn hreina skjöld. Eflaust hefur hann sagt eitt og annað en dómurinn sem hann hefur mátt þola er ekki sanngjarn og ekki reistur á neinum haldbærum rökum.
Ég þekki Megas sem öðling. Við höfum að vísu aldrei verið neitt nánir. Ég hef stundum spjallað við hann í sundi og svo hittumst við alloft yfir kaffibolla á Hressó og öðrum kaffihúsum in ðí óld deis. Ég kynntist honum engu að síður ávallt sem hógværum og hlýjum manni. Alltaf hefur komið vel í ljós að hann er víðlesinn og talar fágaða og fagra íslensku. Listaverk hans eru mýmörg og hafa um langa hríð glatt Íslendinga.
Megas er að verða áttræður, fæddur 7. apríl 1945, og ég fór í gegnum alla netheima, leitandi að umfjöllun um afmælið og heillaóskum frá þjóðinni til meistara Megasar. Ég fæ því miður ekki séð að ríkisvald og þjóð ætli að heiðra kappann. Ekkert húllumhæ. Og hér sit ég heima hjá mér í Mílanó og finn sorgina og reiðina breytast í hnausþykka og ömurlega skömm. Ég skammast mín fyrir þjóðina sem ég er sagður tilheyra. Það verður erfitt að fyrirgefa þann aumingjadóm sem íslensk alþýða sýnir einum af sínum mestu snillingum.
Kæri Megas, hjartans hamingjuóskir með afmælið og takk fyrir þig og snilli þína!