
Sif Sigmarsdóttir:
Skemmst er að minnast hins frábærlega óskammfeilna uppátækis Hatara í Eurovision árið 2019. Sitji fulltrúar Ísraela og Rússa heima eiga pallíetturnar athyglina óskipta.
Ég vinn við að segja hvað mér finnst. En suma daga finnst mér ekki neitt. Þá bregð ég á það ráð að gera mér upp skoðun. Aðra daga veit ég ekki hvað mér finnst. Að ráða fram úr því er öllu erfiðara.
Í kvöld er úrslitakvöld Eurovision. Þátttaka Ísrael í keppninni hefur sætt gagnrýni. Rússlandi var vikið úr keppni við innrásina í Úkraínu. Meira en 15.000 börn hafa látist í hernaðaraðgerðum Ísraela á Gaza. Hvers vegna fær Ísrael að stunda þjóðarmorð en samt taka þátt?
Við fyrstu sýn virðist augljóst að víkja beri Ísrael úr keppni. Við fyrstu sýn virðist réttlátt að Ísland segi sig úr keppninni í mótmælaskyni við þátttöku Ísrael. Við fyrstu sýn virðist blasa við að öllu sómakæru fólki beri að sniðganga Eurovision í kvöld.
Ég veit samt ekki hvað mér finnst.
Í dag er laugardagur og er ég með önnur plön en að láta húðstrýkja mig á internetinu. Ég get samt ekki hamið mig um að koma með eftirfarandi „hot-take“ á Eurovision:
Getur verið að það hafi verið röng ákvörðun að meina Rússum þátttöku í Eurovision? Getur verið að það sé rétt ákvörðun að leyfa Ísrael að vera með? Ættum við öll að horfa á keppnina í kvöld?
Í skóla barnanna minna hér í London hefur stríðið á Gaza verið mikið til umræðu í vikunni. Ástæðan er Eurovision.
Þátttaka Ísrael í Eurovision vekur umræðu um framgöngu Ísrael á Gaza og beinir sjónum að óhæfuverkum Ísraelshers. Það er vissulega eitthvað óviðurkvæmilegt við það að fólk sitji á sófanum heima hjá sér og úði í sig kartöfluflögum yfir fallegri ballöðu sunginni af fulltrúa ríkis sem sprengir á sama tíma upp almenna borgara. En er það eitthvað viðurkvæmilegra að okkur sé gefinn friður til að njóta snakksins og söngsins án þess að vera minnt á ljótleika veraldarinnar; að við getum dáðst að pallíettunum og ljósasýningunni og talið sjálfum okkur trú um að heimurinn sé skínandi fagur?

Hér í Bretlandi er gjarnan sagt: „Out of sight, out of mind.“
Ef Ísrael – og Rússland – fá að taka þátt í Eurovision getum við púað, mótmælt og rökrætt. Skemmst er að minnast hins frábærlega óskammfeilna uppátækis Hatara í Eurovision árið 2019. Sitji fulltrúar Ísraela og Rússa heima eiga pallíetturnar athyglina óskipta.
Er Eurovision-sniðganga til hagsbóta íbúum Gaza eða áhorfendum Söngvakeppninnar?
Ég er ekki enn búin að gera upp við mig hvort ég ætli að horfa á eða sniðganga Eurovison í kvöld. Hvað ætlið þið að gera?
Greinin er birt hér með leyfi höfundar.