- Advertisement -

Búið er að færa sönnur á að rafmyntagröfturinn er án innistæðu

Marinó G. Njálsson:

En vegna þess að þetta var fjármálaafurð, þá er leyfilegt að svindla og blekkja. Jákvæð við þetta er, að núna ætti að losna raforka á Íslandi.

Bankar sem hafa átt í viðskiptum við rafmyntarfyrirtæki eru að falla núna hver á fætur öðrum í henni Ameríku. Loftið er að leka úr blöðrunni og þá kemur í ljós að rafmyntir eru ekkert annað en rafrænar færslur með ekkert að baki sér annað en auðtrúa einstaklinga sem féllu fyrir Ponzisvikum. Spurningin er ekki hvort, heldur hvenær þetta fer að hafa áhrif á stærri banka og önnur viðskipti með rafræna gjörninga sem hafa ekkert efnislegt að baki sér.

Þetta er í fjórða sinn frá árinu 1998 sem hökkt kemur á Wall Street. Það ár féll vogunarsjóðurinn LTCM. Hann var sá stærsti og flottasti og að baki honum stóðu m.a. Myron Scholes og Robert C. Merton sem fengu Nóblesverðlaunin í hagfræði 1997 vegna rannsókna sinna á hegðun verðbréfa, m.a. Black-Scholes formúluna. Sjóðurinn var látinn falla, en þeim sem höfðu sett peninga sína í hann var bjargað. Viðskipti LTCM gengu meira og minna út á veðmál um að heimsviðskiptin þróuðust í samræmi við Black-Scholes formúluna, en svo féll Rússland.

Árið 2001 sprakk Dot Com bólan, en hún var í reynd ekkert annað en Ponzi svikamylla, þar sem hluti af markaðsaðilum talaði upp virði tæknifyrirtækja á NASDAQ, þar til að í ljós kom að fyrirtækin stóðu ekki undir væntingum markaðarins. Orðið „froða“ er almennt notað um þessa háttsemi markaðsaðila og varð t.d. Íslensk erfðagreining fórnarlamb slíkra froðukenndra væntinga árin á undan. Afleiðingarnar af því þegar Dot Com bóla sprakk urðu verulegar og fóru margir vogunarsjóðir illa út úr því.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Dramb og skortur á áhættustýringu varð þeim að falli.

Þá voru það undirmálslánin og lausafjárkreppan árin 2007-8. Bear Stearns var bjargað, en þegar Lehman Brothers féll í september 2008, hófst stærsta björgunaraðgerð sem nokkru sinni hefur verið sett af stað í Bandaríkjunum. Þetta var kornið sem fyllti mælinn eða var það stráið sem braut bak kameldýrsins og þrír illa reknir bankar á Íslandi féllu flatir. Dramb og skortur á áhættustýringu varð þeim að falli, en það sem verra var, að þeir drógu á annan tug þúsunda heimila og fyrirtækja með sér í hyldýpið. Stjórnendur þeirra neita enn að viðurkenna að þeir hafi gert eitthvað rangt. FME og Seðlabankinn stoppuðu þá ekki af í lögbrotum og áhættuhegðun sem þeir sjálfir vissu af!

Það nýjasta er að búið er að færa sönnur á að rafmyntagröfturinn er án innistæðu. Eitthvað sem flestir vissu, en fyrir suma var þetta of gott tækifæri til að skella í eina Ponzisvikamyllu til að sleppa því. Hefðu menn verið að selja snákaolíu, þá hefðu þeir verið stoppaðir. En vegna þess að þetta var fjármálaafurð, þá er leyfilegt að svindla og blekkja. Jákvæð við þetta er, að núna ætti að losna raforka á Íslandi.

Greinina birti Marinó fyrst á Facebooksíðu sinni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: