- Advertisement -

Lántökum kemur ekkert við eða bera ábyrgð á hvernig bankar fjármagna sig

Mig langar enn og aftur að biðja hagfræðinga að hætta að halda því fram, að lánþegar séu að græða óeðlilega á því að vera með hagstæða vexti.

Marinó G. Njálsson.

Höfundur: Marinó G. Njálsson.

Skelfilegir hlutir hafa gerst. Forsjálum lántökum tókst að snúa á bankakerfið og taka lán með hagstæðum vöxtum. Síðast þegar það gerðist, þá komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu, að lánveitendur hafi orðið fyrir forsendubresti, dæmdi vextina ólöglega og bætti bönkunum upp forsendubrestinn með 400 milljarða króna gjöf. Spurningin er hvort það gerist aftur.

Prófessor í hagfræði er með böggum hildar yfir því að einhverjir lántakar hafi fengið, að hans mati, of hagstæða vexti og séu ekki að greiða 10% vexti af húsnæðislánum sínum, eins og þeir ættu að gera, einnig að hans mati. Núna bíður hann í með öndina í hálsinu eftir því að þessum lántökum verði refsað með himinháum vöxtum. Honum er nefnilega alveg sama, að þegar lánveitendur veittu lánin, þá voru þeir með mjög hagstæðan vaxtamun milli útlánsvaxta og innlánsvaxta á þeim tíma. Hann heldur síðan örugglega, að bankar fjármagni fyrirfram lán í íslenskum krónum til almennra viðskiptavina. Það er hins vegar gamaldags peningahagfræði sem á ekki lengur við. Bankar fjármagna lán (búa til peninga) um leið og þeir leggja lánið inn á bankareikning lántakans. (Ef þið trúið mér ekki, þá get ég gefið ykkur tengil um efnið á vef Bank of England, sem er seðlabanki Englands.)

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hvernig bankinn fjármagnar sig er mál bankans, ekki lántakans.

Staðreyndin er, að bankarnir eru enn með jákvæðan vaxtamun þrátt fyrir háa verðbólgu og þeir eru því ekki að tapa. Það er líka staðreynd, að skuldir lántaka eru að lækka vegna þess að þeir geta greitt afborganir lána sinna, ekki vegna þess að vextirnir eru lágir. Vextir koma fjárhæð skulda ekkert við (nema vextirnir séu verðtryggðir).

Mig langar enn og aftur að biðja hagfræðinga að hætta að halda því fram, að lánþegar séu að græða óeðlilega á því að vera með hagstæða vexti. Hvergi annars staðar í heiminum er það talið athugunarvert, að vextir sem lántakar greiða séu hagstæðir og séu undir verðbólgustigi. Í flestum nágrannalöndum okkar, ef ekki öllum, geta lántaka fengið hóflega, fasta, langtíma vexti á húsnæðislánum allan lánstímann. Þannig hefur verið hægt að fá 3% fasta vexti á 30 ára lánum í Danmörku og engum dönskum hagfræðingi myndi detta í hug, að koma í útvarpsviðtal og gráta úr sér augun yfir því að fólk væri enn að greiða 3% vexti í 7,7% verðbólgu eins og er hér á landi núna. Nei, danski hagfræðingurinn myndi skilja, að lánveitandinn er að greiða lægri vexti á fjármögnun sinni og væri hann ekki að gera það, þá kæmi það lántakanum ekkert við.

Hvernig bankinn fjármagnar sig er mál bankans, ekki lántakans. Alveg eins og engum dettur í hug, að sá sem kaupir bíl þurfi að hafa áhyggjur af því hvernig bílaumboðið fjármagni innflutning á bílnum eða hvaða vara eða þjónusta það er sem keypt var. Hafi bankinn gert mistök í sinni fjármögnun, þá væri nær að hagfræðingurinn beindi gagnrýni sinni að stjórnendum bankans, en ekki sjá ofsjónum yfir því að lántaki sé með góð vaxtakjör í tvö eða þrjú ár.

Höfum það alveg á hreinu, að bankar haga sínum útlánum þannig að þeir fái viðunandi vaxtamun. Ekki taka orð mín trúanleg, frekar en þið viljið. Lesið þetta viðtal við Olav Guttesen, bankastjóra Betri banka í Færeyjum – https://heimildin.is/grein/17974/ (ég held að það sé hægt að lesa það með því að fara í gegn um Facebook). Hann hlær af þessum gráti íslenskra hagfræðinga yfir að allt annað en „raunvextir“ sé gjöf til lántaka.

Mig langar svo að endurtaka það sem ég segi að ofan:

Lántökum kemur ekkert við eða bera ábyrgð á því hvernig bankar fjármagna sig. Hafi banki gert mistök í fjármögnun sinni, er það algjörlega hans mál.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: