- Advertisement -

Lífeyrissjóðir mega ekki vera á valdi hagsmunaaðila

Það er reiðarslag fyrir alla þá sem tóku þátt í útboðinu að fá núna strax skýra vísbendingu um að hlutafjárframlag þeirra sé strax orðinn „vonarpeningur“.

Ragnar Önundarson skrifar:

Í  hádegisfréttum kom fram að Icelandair hefur sagt upp nærri helmingi flugmanna sinna. Þetta „örþrifaráð“ sem gripið er til, þrátt fyrir hlutafjáraukningu fyrir aðeins nokkrum dögum, segir sína sögu. Við komumst ekki hjá því að draga ályktanir.

Flugmenn, flugvirkjar, flugfreyjur og -þjónar og fleiri starfsmenn hafa komið mikið til móts við félagið til að lækka kostnað þess og margir tekið þátt í hlutafjárútboði félagsins, beint og óbeint gegnum lífeyrissjóði sína. Allt var þetta gert í góðri trú og trausti þess að útboðið tryggði framtíð félagsins, að „bótin næði yfir gatið“.  Vandinn sem við er að etja er sá að „gatið“ er að stækka.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég hef ekki látið í ljós neina skoðun síðan útboðið fór fram, en nú finnst mér tilefni til að rifja upp fyrri ummæli:  Félagið fór í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu, sem tók EKKI til ótryggðra kröfuhafa, sem augljóslega voru í mestri áhættu. Nýja hlutaféð eyðir þeirra áhættu, a.m.k. um tíma. Í stað þess að vera varið í arðbær verkefni er það notað svona. Ef félagið hefði farið í gegnum nauðasamninga hefðu þessar kröfur verið afskrifaðar um ca. 70%, skv. því sem algengt er. Til er aðferð til að vernda „kerfislega mikilvægan“ rekstur á meðan farið er í gegnum nauðasamninga. Hún er kölluð „hive-down“, henni hef ég marglýst.

Með hlutafjárútboði er sóst eftir að almenningur, beint og óbeint gegnum lífeyrissjóði, leggi fram af sínu ráðstöfunarfé og/eða framtíðartekjum. Taki áhættu rekstrarins á sig. Það stekkur enginn yfir gjá í áföngum. Bótin verður að ná yfir gatið. Þegar fé er ekki aðeins sótt til almennings, heldur líka í framtíðartekjur hans og m.a.s. starfsmanna, þá verða heilindi að vera að baki. Það er reiðarslag fyrir alla þá sem tóku þátt í útboðinu að fá núna strax skýra vísbendingu um að hlutafjárframlag þeirra sé strax orðinn „vonarpeningur“.

Lærum nú af þessu: Fé lífeyrissjóða má ekki nota eins og gólftusku til að þurrka upp það sem til spillis hefur farið. Lífeyrissjóðir mega ekki vera á valdi hagsmunaaðila sem umgangast það eins og enginn eigi það. Mjög margir sjóðfélagar hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með réttindi sín eftir „hrun“. Sjóðfélagar verða að fá aðild að stjórnum lífeyrissjóða.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: