- Advertisement -

Siðleysi í íslensku viðskiptalífi

Marinó G. Njálsson skrifar:

Ég legg til, að seðlabankastjóri og aðalhagfræðingur bankans fái ekki meira í laun en nemur miðgildislaunum vinnandi fólks í landinu, svo þeir finni áhrif meðala sinna á eigin skinni.

„Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Styrmir Gunnarsson, Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir, 2010.

Enn og aftur kemur fram, að heiðarleiki í íslensku viðskiptalífi nær ekki lengra en hvernig sé hægt að græða næstu krónu. Enn einu sinni er hún furðuleg þögnin hjá Samtökum atvinnulífsins.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Maður heldur alltaf í vonina…

Samráð skipafélaganna tveggja hófst vissulega á hápunkti spillingarinnar fyrir hrun fjármálakerfisins, en það hélt áfram á sama tíma og þjóðin var að brjótast út úr hlekkjum blekkinganna sem bankar, auðmenn, útrásarvíkingar og stjórnvöld höfðu haldið á lofti. Meðan reynt var að siðvæða þjóðfélagið, þá héldu tvö skipafélög áfram að svindla á landsmönnum, vegna þess að þau gátu það. Meðan stjórnarformaður annars þeirra sat á sakamannabekk, þá héldu svikin og blekkingarnar áfram.

Forstjóri fyrirtækjasamsteypu, lýsti því yfir eftir að kjarasamningar voru gerði í desember, að hækkun launakostnaðar hjá samsteypunni um 10% myndi valda 10% hækkun vöruverð, þrátt fyrir að samningarnir myndu bara valda 1,5% hækkun heildarkostnaðar. Hann stóð við orð sín og gott betur. Verð dagvöru hækkaði um 14% nánast strax og svo um 9% á þremur mánuðum núna í sumar. Svo sem ekki allt á hans ábyrgð. Verslunarstjóri einnar verslunar innan samsteypunnar viðurkenndi fúslega, að tiltekin vara hefði hækkað um 80%, en sagði jafnframt að nú færi hún lækkandi. Kannski verður hækkunin þegar upp verður staðið 60%, en samt verður það 16-18% hækkun lambakjöts að kenna að verðbólgan verður þrálát. (Afsakið meðan ég æli.) Eins og venjulega mun minnst af hækkun lambakjötsins renna til bænda, en mest til afurðastöðvanna og smásalanna.

Maður heldur alltaf í vonina, að eitthvað breytist til batnaðar á Íslandi, en staðreyndin er að fyrir hvert skref í rétta átt, þá virðumst við taka 10 skref til baka. Í hvert sinn sem örlar á réttlæti og skynsemi, þá er almenningur barinn til hlýðni og hann stendur verr eftir.

Ég legg til, að seðlabankastjóri og aðalhagfræðingur bankans fái ekki meira í laun en nemur miðgildislaunum vinnandi fólks í landinu, svo þeir finni áhrif meðala sinna á eigin skinni. Ég legg líka til að forstjórar fyrirtækjasamsteypa fái miðgildislaun starfsmanna sinna. Það ætti að vera í samræmi við árangursleysi þeirri í að halda vöruverði niðri. Ég legg síðan til, að verði fyrirtæki uppvís af viðlíka skort á siðgæðisvitund og skipafélögin tvö, þá verði stjórnvöldum skylt að gera þau upptæk án bóta til eigenda og þeim breytt í almenningshlutafélög þar sem allir landsmenn eignist jafnan hlut í fyrirtækjunum. Það væru bæturnar sem fólk fengi fyrir svikin og fjártjónið sem þau ollu.

Greinina birti Marinó á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með leyfi Marinós. Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: