- Advertisement -

Marinó: Íslandsbanka verði skipt í þrennt

Marinó G. Njálsson:

Nándin við viðskiptavininn er horfin. Skilningurinn á viðfangsefnum almennings er ekki til staðar. Búið er að slíta öll mannleg tengsl og illa hönnuð gervigreind er komin í staðinn.

Eitt af vandamálum íslensks almenning hefur lengi verið að stóru bankarnir hafa ekki verið hreinir viðskiptabankar. Þeir hafa verið reknir sem blanda af viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Ef ekki væri fyrir, að hagnaðarkröfur fjárfestingabanka eru almennt miklu hærri en viðskiptabanka, þá gæti þetta gengið. En það gerir það ekki. Síðan hefur þetta hjónaband bara alls ekki verið gott fyrir almenna viðskiptavini, því þeirra þarfir koma, að því virðist, alltaf á eftir þörfum fjárfestingahlutans. Svo má ekki gleyma því, að fjárfestingahluti allra bankanna reka sjóði, sem eiga að heita að séu í eigu hinna og þess fjárfesta, en bankarnir eiga stóran hluta í. Fyrir þá skiptir því meira máli að ná árangri í fjárfestingastarfseminni, en að sinna viðskiptabankahlutverki sínu.

Þjóðverjar hafa lengi byggt á þrískiptu bankakerfi, þ.e. sparisjóðum og samfélagsbönkum, millistórum viðskiptabönkum og svo stórum fjárfestingarbönkum. Sparisjóðirnir/samfélagsbankarnir hafa verið fyrir hinn almenna launamann og smæstu fyrirtæki, stóru bankarnir hafa séð um stærstu fyrirtækin og fagfjárfesta, en millistóru viðskiptabankar um þá sem eru þar á milli.

Séu einhverjir með þá blautu drauma, að þrýsta í gegn sameiningu Íslandsbanka og Kviku, þá vil leggja til að það verði gert á eftirfarandi hátt:

Þú gætir haft áhuga á þessum
  • 1. Íslandsbanka verði skipt upp í tvo hluta, þ.e. viðskiptabankahluta og fjárfestingabankahluta.
  • 2. Fjárfestingabankahlutinn verði rennt saman við Kviku og settur á markað.
  • 3. Viðskiptabankahlutinn verði gerður að hreinum viðskiptabanka eða jafnvel breytt í keðju sparisjóða og rekinn án hagnaðarsjónarmiða.
  • 4. Ríkið verði með 75-80% eignarhlut í viðskiptabankanum, en óverulegan hlut í fjárfestingabankanum. Verði sparisjóðakeðjan ofan á, þá verði ríkið eigandi stofnfjár hvers sparisjóðs, en geti með tímanum komið því í hendur sveitastjórna, þar sem hver sparisjóður er staðsettur. Bannað verði að hlutafjárvæða sparisjóðina eða selja í hendur fjárfesta.

Hagnaðurinn af slíku er ekki nægur…

Ég hef svo sem langt til svipaða hugmynd áður, en þá var verið að tala um samneiningu Landsbankans og Íslandsbanka.

Hvers vegna þurfum við þetta fyrirkomulag? Það er vegna þess, að stóru bankarnir hafa ekki lengur nægan áhuga á að sinna minni viðskiptavinum. Hagnaðurinn af slíku er ekki nægur til að eyða tíma starfsmanna í það. Notaðar eru alls konar kerfislægar afsakanir fyrir því að veita ekki þjónustuna. Nándin við viðskiptavininn er horfin. Skilningurinn á viðfangsefnum almennings er ekki til staðar. Búið er að slíta öll mannleg tengsl og illa hönnuð gervigreind er komin í staðinn. Það má nefnilega ekkert kosta að veita hinum almenna viðskiptavini þjónustu, en hann á hins vegar að borga ef allt fer í handaskol hjá fjárfestingahlutanum.

Þeir sem muna hvernig þetta var áður en einkavæðing Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands hófst, vita að hér var góð fjármálaþjónusta miðað við þarfir stærsta hluta þjóðarinnar. Flestir hinna vildu hvort eð er ekki að neinn á Íslandi vissi hvernig þeir gerðu hlutina. Síðan fóru íslensku bankarnir í útrás til að hjálpa fólki að koma fé í skattaskjól, blönduðu sparisjóðunum inn í þetta, sem horfðu á „stóru strákana“ með stjörnur í augunum. Eins og það tók bankdaríska fjármálakerfið bara 8 ár að koma sér í ógöngur, var eins með það íslenska. Á 8 árum hvarf allt sem hafði verið nema 3 sparisjóðir eða svo. EKKERT annað af fjármálakerfi síðustu aldar stóð eftir og núna halda menn, að sama aðferð gefi aðra niðurstöðu.

Við megum ekki endurtaka það…

Mér finnst þetta vera svona afturhvarf til fortíðarinnar, að horfa upp á það sem er að gerast núna á Íslandi. Neytandinn/litli maðurinn skiptir ekki máli, heldur að græða á daginn og grilla á kvöldin. Ég skil vel að þau sem eru undir þrítugu muni ekki það sem gekk yfir á fyrstu 8 árum aldarinnar, en hvet þau þá til að lesa sér til eða spyrja þau sem eru sér eldri. Við megum ekki endurtaka það sem gekk yfir á þessum árum, en stefnum lóðrétt þangað. Ég hef skrifað nokkrar svona færslur á síðustu 14 árum (sérstaklega á árunum 2009-2013), finnst nánast fáránlegt að endurreisn fjármálakerfisins hafi ekki heppnast betur og gjörsamlega út í hött, að ég sé að hluta að endurnýta 10-12 ára gamlar hugmyndir.

Til að fræðast betur um hugmyndina að baki svona breytingu á bankakerfinu, þá er gott að horfa á myndbandið í meðfylgjandi tengli. Þar er líka farið inn á hvernig hugmyndin um uppruna peninga hafa breyst og einnig hlutverk bankanna.

Greinina birti Marinó á Facebooksíðu sinni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: