- Advertisement -

Ég fékk útborgað í dag

Heilar 264 þúsund krónur. Fyrir að hugsa um eldri borgara, fyrir að þrífa þegar þau kúka á gólfið, þegar þau pissa út í horn. Fyrir að hugga þau þegar þau gráta, fyrir að lesa þau eða syngja í svefn. Fyrir að raka og klæða og þvo þeim sem deyja og fyrir að hlusta á og hugga aðstandendur. Fyrir að mata fólk sem er hrætt og vill fara heim, fyrir að grípa þau þegar þau detta og fylgja þeim þegar þau eru í göngutúrum á slóðum fortíðar.

Ég hughreysti þau þegar þau vita ekki hvar þau eru, sakna barnanna sinna og löngu dáinna vina, ættingja, maka og þegar þau eru óhuggandi af hræðslu af því þau skilja ekki lengur neitt í kringum sig.

Þau eru hrædd við vatnið í sturtunni, svo ég þvæ þeim með þvottapoka. Síðustu dagana í lífi fólksins sem skapaði allt sem við höfum byggt á held ég í hendina á þeim, græt með þeim og hlæ með þeim.

264 þúsund krónur fyrir vaktavinnu, kvöld-, helgarvaktir og rauða daga. Suma daga er ég í vinnunni frá 8-23 af því það sárvantar mannskap.

Anna Jóna Heimisdóttir skrifaði.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: