- Advertisement -

Eigendur Íslandshótela fara með ósannindi

Við komum fram við félagsfólk Eflingar eins og það á skilið, sem frjálst, fullorðið fólk sem á skilið virðingu og völd í þessu samfélagi.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar:

Nú þarf ég að svara spurningum frá fréttamönnum um það hvort að Davíð Torfi Ólafs­son, framkvæmdastjóri Íslandshótela, fari með rétt mál þegar hann ásakar Eflingu um að ljúga að félagsfólki sem starfar á Íslandshótelum. Ef að þetta væri ekki svona fáránlegt væri þetta auðvitað hlægilegt. En ég skal svara þessari spurningu hér og svo hvar sem er: Nei, hvorki ég né félagar mínir í samninganefnd Eflingar sem heimsóttu Íslandshótel á síðastliðnum dögum lugum að félagsfólki. Við gerðum það ekki heldur á þeim fjölmenna fundi sem haldinn var í húsakynnum Eflingar á sunnudagskvöld þangað sem að félagsfólki Eflingar sem að starfar á Íslandshótelum var boðið til að spyrja allra þeirra spurninga sem þau vildu og fá réttar upplýsingar um stöðuna. Enda er það svo, og ætti að vera orðið öllum löngu ljóst, að Efling leggur alla áherslu á að koma réttum upplýsingum um kjaraviðræður og stöðuna til félagsfólks.

Við í samninganefnd Eflingar vinnum fyrir opnum tjöldum og höfum ekkert að fela. Við þurfum ekki að notast við lygar eða blekkingar. Og við þurfum ekki að halda „captive audience meetings“ líkt og menn sem vilja reyna að hræða fólk til hlýðni frekar en að borga þeim mannsæmandi laun. Við komum fram við félagsfólk Eflingar eins og það á skilið, sem frjálst, fullorðið fólk sem á skilið virðingu og völd í þessu samfélagi.

Viðsemjendur okkar hafa ekki mætt með neitt að samningaborðinu nema sí-vaxandi hroka.

Rétt fyrir kl. 16 í dag sendi ég póstinn sem þið getið lesið hér að neðan á félagsfólk Eflingar sem starfar á Íslandshótelum. Tilgangurinn er að bregðast við ósannindum þeim sem að eigendur Íslandshótela reyna nú að breiða út. Og einnig til að bjóða félagsfólki Eflingar sem að starfar á Íslandshótelum að ganga til liðs við samninganefnd Eflingar.

Samninganefnd Eflingar hefur unnið baki brotnu síðan snemma í haust við að undirbúa kröfugerð, vinna svo þrjú tilboð, mæta á fundi og svo mætti áfram telja. Viðsemjendur okkar hafa ekki mætt með neitt að samningaborðinu nema sí-vaxandi hroka og æ forhertari tilraunir til að svipta Eflingu sjálfstæðum samningsrétti. Og nú þurfum við að sitja undir ásökunum um það að við séum að ljúga að félagsfólki. Ofríki auðstéttarinnar verður sífellt yfirgengilegra í samfélagi okkar. En við gefumst ekki upp vegna þess að við vitum að við munum hafa sigur.

Ef að þið smellið á hlekkinn hér getið þið lesið allan póstinn sem ég sendi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: