- Advertisement -

Er evran lausnin fyrir okkur?

Og stjórnmála- og embættismanna elítan, hefur hún hikað við að taka sér launahækkanir?

Ragnar Önundarson skrifar:

Dollarinn er frá 1775. Öll hagþróun í BNA hefur haft hann að forsendu. Evran er aðeins 20 ára. Ríkin voru mis-iðnvædd, þau á jaðrinum minnst, í miðjunni mest. Danmörk hefur fjölbreytt atvinnulíf. Svíþjóð líka.

Aðlögun jaðarríkjanna sumra hefur verið erfið og atvinnuleysi mikið, mest meðal ungs fólks. Atvinnuleysi er mesta böl hvers samfélags, vegna víðtækra skaðlegra afleiðinga. Finnar tóku upp evru og þraukuðu gegnum niðurfærslu, við gætum leitað í þeirra smiðju að dýrmætri reynslu. Ég held að meiri orkuvinnsla og stóriðja þyrfti að vera undanfari evru og óttast mest að orkan verði flutt út „óunnin“ um sæstreng og atvinnan með.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Spurningin er hvort „sjúklingurinn“ lifi aðgerðina af?

Fylgjendur evru horfa til markmiðsins, sem er stöðugleiki. Það er skiljanlegt. Spurningin er hvort „sjúklingurinn“ lifi aðgerðina af? „Við“ yrðum vissulega að gæta þess að úthluta ekki meiri kjarabótum til almennings en hagvöxtur og framleiðniaukning leyfa. Þessi „við“ eru eigendur og stjórnendur fákeppnisfélaganna og stjórnmála- og embættismanna-elítan. Hefur þetta fólk gefið fordæmi um hófstillingu, svonefnt meðalhóf, í sjálftöku sinni af almenningi ? Allar greinar viðskiptalífsins, nánast, eru á valdi fáeinna fyrirtækja. Þegar gengið lækkar hækka þau verðið, þegar það styrkist á ný draga þau lappirnar. Samkeppnin er um stóru viðskiptavinina, en sjálftakan af þeim smáu, heimilin og smáfyrirtækin borga auglýst verð. Og stjórnmála- og embættismanna elítan, hefur hún hikað við að taka sér launahækkanir? Allir vita svarið, það er nei. Hefur hún hikað við að þrengja að kjörum aldraðra og öryrkja, í því skyni að „ná endum saman“ í ríkisbúskapnum ? Allir vita svarið, það er nei.

Umskiptin yrðu harkaleg við upptöku evru, strax í næstu kreppu. Útflutningsfyrirtækin yrðu að mæta aflabresti og/eða verðfalli með uppsögnum. Sum mundu týna tölunni. Viðskiptahalli færi vaxandi og yrði langvarandi. Sjálftökufólkið mundi græða á daginn og grilla á kvöldin og kannski „spila á fiðlu“.  „Róm var ekki brennd á einum degi“ sagði einhver spéfuglinn. Við tæki langt tímabil svonefndrar „niðurfærsluleiðar“. Elítan mundi þurfa að snúa sér til alþýðunnar, samtaka launafólks, og reyna að sannfæra þau um að nauðsynlegt sé að lækka launin. Hvernig mundi það ganga ?

Félagslegur órói yrði afleiðingin og það ástand mundi vara lengi. „Nær væri að skipta um þjóð í landinu“ sagði reyndur þungavigtarhagfræðingur í mín eyru. Það er svosem að gerast.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: