- Advertisement -

Er Kristján Þór prakkari? Setti teiknibólur í ráðherrastólana

Þau sitja þegjandi á teiknibólunum.

Sigurjón M. Egilsson skrifar:

Kristján Þór Júlíusson, sem fer bæði með sjávarútvegsmál og landbúnað í ríkisstjórninni, virðist geta verið hið mesta ólíkindatól. Nema Bjarni noti hann til sérstakra verka.

Hinum tveimur flokkunum í ríkisstjórninni er sumt heilagt. Ekki margt, aðeins fátt. Byrjum á Framsókn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Flokkurinn þolir ekki innflutning á landbúnaðarafurðum. Bara þolir það ekki. Þrátt fyrir harða baráttu og endalausa baráttu er bara eitt eftir, innflutningur á ófrosnu kjöti. Þrátt fyrir dóma dómstóla vill Framsókn meina, eða hið minnsta vona, að hægt hefði verið að sækja um undanþágu frá innflutningi. Kristján Þór og Bjarni reyndu ekki einu sinni. Nú þarf Framsókn að sættast á þeirra helsta, sumir segja, baráttumál flokksins eina er tapað. Fullkomin niðurlæging.

Eitt helsta baráttumál Vinstri grænna er andstaðan við hvalveiðar. Kristjáni Þór og Bjarna er eflaust skemmt. Búið er að ákveða hvalveiðar Kristjáns Loftssonar til næstu fimm ára. Sú ákvörðun er liðsmönnum Vinstri grænna erfitt. Mjög erfitt. Einkum þar sem með öllu er óþarft að heimila veiðarnar. Og alls ekki til margra ára. Kristján Þór og Bjarni skemmta sér eflaust vel þegar þeir horfa á angist á samráðherra sinna í ríkisstjórninni.

Hvorki Katrín Jakobsdóttir né Sigurður Ingi Jóhannsson gera neitt gegn ofríki Sjálfstæðisflokksins. Flokks sem stundar ógnarstjórnun í ríkisstjórn Íslands.

Segja má að Kristján Þór hafi sett teiknibólur í ráðherrastóla þeirra Katrínar og Sigurðar Inga. Þau þora ekki annað en láta sem ekkert sé og sitja á teiknibólunum. Eins og kjánar. Meðan reyna ráðherrar Sjálfstæðisflokksins að halda niðri í sér hlátrinum.

Svona virkar ríkisstjórn Íslands.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: