
„Nýr meirihluti lýsir því yfir að fara skuli vel með opinbert fé en ber svo fram hverja útgjaldatillöguna á fætur annarri – eins og þá hugmynd að koma upp óumbeðinni 100 milljóna króna selalaug í Húsdýragarðinum. Hvergi er að finna aðgerðir í þágu atvinnulífs, en nýjan meirihluta virðist skorta grundvallarskilning á þeim veruleika að án kröftugrar verðmætasköpunar verður ekki unnt að standa undir allri velferðinni sem þær boða,“ skrifar Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
„Nýr meirihluti leggst gegn uppbyggingu leikskóla á vinnustöðum foreldra og tryggir um leið að biðlistar eftir leikskólaplássum styttist ekki. Á borgarstjórnarfundi í vikunni var staðfest að borgin myndi ekki heimila Alvotech fyrirhugaða uppbyggingu leikskóla í Reykjavík. Það eru veruleg vonbrigði. Hér skortir skapandi hugsun og lausnamiðaða nálgun á þann viðvarandi leikskóla- og daggæsluvanda sem hefur íþyngt mörg hundruð fjölskyldum árlega um langt skeið,“ skrifaði Hildur.
Kjartan Magnússon skrifar einnig í Mogga dagsins:
„Aðgerðaáætlun nýs meirihluta Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Flokks fólksins og Vinstri grænna er rýr í roðinu og gefur litla hugmynd um hvernig borginni verður stjórnað þá fjórtán mánuði, sem eru til kosninga.“
Og svo þetta: „Aðgerðaáætlun nýs vinstri meirihluta í Reykjavík er ekki gott leiðarljós fyrir starf borgarstjórnar fram að kosningum. Hún ber með sér kreddur, flækjur og harðari vinstri lausnir, án mælanlegra markmiða. Þar vantar stefnumál, sem bæta myndu líf almennra Reykvíkinga til muna.“