Segja meirihlutann í Hafnarfirði mismuna fötluðu fólki
Með þessari afstöðu sinni hafði meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks athugasemdir, ábendingar og gagnrýni samráðshóps bæjarins í málefnum fatlaðs fólks, Öryrkjabandalags Íslands og Þroskahjálpar að engu.
„Á fundi bæjarstjórnar hafnaði meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks enn og aftur tillögu Samfylkingarinnar sem ætlað var að koma í veg fyrir mismunun gagnvart fötluðu fólki við úthlutun á félagslegu húsnæði á vegum bæjarins. Sú afstaða meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks kemur ekki endilega á óvart en sendir vond skilaboð til fatlaðs fólks í Hafnarfirði og þeirra sem hafa hug á að flytja til bæjarins,“ segir í frétt frá Samfylkingunni í Hafnarfirði, þar sem Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar er foringi.
„Málið snýst um ákvæði í reglum bæjarins um úthlutun félagslegs húsnæðis. Ákvæðið felur í sér að fólk með fötlun sem óskar eftir þjónustu bæjarins þarf að hafa samráð við sveitarfélagið um búsetuform ef viðkomandi einstaklingur óskar eftir þjónustu sveitarfélagsins. Þó um almennar reglur um úthlutun félagslegs húsnæðis sé að ræða þá ákveður meirihlutinn að setja inn þetta hafnfirska sérákvæði sem myndar þá kvöð á fatlað fólk að það verði að hafa samráð við bæinn um búsetuform. Slík kvöð hvílir ekki á öðru fólki sem hyggst flytja í bæinn eða óska eftir húsnæði á vegum bæjarfélagsins. Því er hér um óásættanlega mismunun að ræða sem við jafnaðarfólk mótmælum harðlega og gagnrýnum afstöðu og vinnubrögð meirihlutans í málinu.
Með þessari afstöðu sinni hafði meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks athugasemdir, ábendingar og gagnrýni samráðshóps bæjarins í málefnum fatlaðs fólks, Öryrkjabandalags Íslands og Þroskahjálpar að engu. Allir þessir aðilar gagnrýndu þetta ákvæði harðlega og drógu verulega í efa það stæðist ákvæði laga um þjónustu við fatlað fólk, laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er alvarlegt mál þegar meirihluti bæjarstjórnar kýs að hunsa athugasemdir hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og samráðshóps á vegum bæjarfélagsins um málefni fatlaðs fólks, sem beinlínis er settur á fót til þess að eiga samráð við bæinn um ákvarðanir og stefnumótun sem snúa að hópnum.
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lýsa furðu sinni á þessari afstöðu og vinnubrögðum meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og hvetur fulltrúa meirihlutans til þess að hlusta á orð hagsmunasamtaka fatlaðs fólks og taka umrætt ákvæði, sem mismunar fötluðu fólki, út úr reglum bæjarins.“