- Advertisement -

Er viljandi verið að veikja Fiskistofu?

Nokkuð merkileg skoðanaskipti, milli Helgu Völu Helgadóttur og Kristjáns Þórs Júlíussonar, voru á Alþingi í dag. Helga Vala átti frumkvæðið:

Ráðuneytið felldi niður málið.

„Í nóvember 2017 opinberaði sjónvarpsþátturinn Kveikur meint brottkast í fiskiskipinu Kleifabergi. Nýjustu myndskeiðin voru frá árinu 2016 en eldri myndskeið frá 2008–2011. Frásagnir sjómanna voru ótvíræðar. Brottkast virtist ástundað í ríkum mæli um borð í þessu skipi sem og fleirum. Fiskistofa fékk upptökur og frásagnir skipverja í hendur og ákvað þriggja mánaða veiðileyfissviptingu. Samkvæmt vinnureglu Fiskistofu ber jafnframt að kæra svo stórfelld brot til lögreglu. Það var ekki gert. Veiðileyfissviptingin var kærð til ráðuneytis hæstvirts sjávarútvegsráðherra sem þrátt fyrir þau gögn sem þá höfðu birst frestaði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar svo að skipið gæti áfram stundað veiðar á meðan málið væri í vinnslu. Var það gert þrátt fyrir skýr lagaboð um að kæra fresti ekki réttaráhrifum. Ráðuneytið felldi niður málið er varðaði eldra brottkast en sendi nýjustu upptökur og frásagnir af ársgömlum stórfelldum brotum aftur til Fiskistofu til frekari rannsóknar. Eins og áður segir var málið ekki kært til lögreglu, eins og vinnureglur Fiskistofu mæla fyrir um né heldur virðist Fiskistofa hafa haldið áfram rannsókn á þessu brottkasti sem birtist í Kveik eins og ráðuneytið fyrirskipaði,“ sagði Helga Vala, og spurði svo:

„Því vil ég spyrja hæstvirtan ráðherra: Telur hann þessa málsmeðferð vera í samræmi við lög og reglur og til þess fallna að tryggja hagsmuni eiganda auðlindarinnar? Var honum kunnugt um að rannsókn á brottkastinu hefði verið svæfð hjá Fiskistofu? Telur hann þetta góð skilaboð til útgerðarinnar og sjómanna um meðferð á auðlindum hafsins?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

…slíka fullyrðingu og slíka aðdróttun.

Kristján Þór lét sem hann væri móðgaður. Sem hann kannski var:

„Fyrst varðandi spurningu háttvirts þingmanns um það hvort mér hafi verið kunnugt um að einhver rannsókn hafi verið svæfð innan veggja Fiskistofu þá heyri ég það bara hér í fyrsta skipti, slíka fullyrðingu og slíka aðdróttun. Mér er ekki kunnugt um nokkuð slíkt, alls ekki. Það má örugglega hafa ýmis orð um þá rannsókn sem háttvirtur þingmaður nefnir hér. Við erum að vinna á vettvangi ráðuneytisins, undir forystu ákveðnar verkefnisstjórnar, að tillögugerð varðandi fiskveiðieftirlit á grundvelli þeirrar skýrslu sem Ríkisendurskoðun skilaði þinginu. Sú skýrsla bar með sér að það væri ýmislegt í fiskveiðieftirlitinu, m.a. störfum Fiskistofu og hvernig henni eru sköpuð færi til að sinna sínu eftirliti og fleiri þættir, sem kannski valda því að stjórnsýsla þessara mála hafi ekki verið nægilega góð í öllum tilvikum. Það kann vel að vera að svo sé og mér finnst raunar skýrsla Ríkisendurskoðunar undirstrika það að nokkru leyti.

Ég vænti þess að verkefnisstjórnin og sá samráðsvettvangur sem að baki henni starfar muni skila okkur tillögum um bragarbót á þessum þáttum sem snúa að fiskveiðieftirlitinu, þar með töldum málum sem snerta vinnuferla sem koma við sögu í þessu máli. En um þetta einstaka mál ætla ég ekki að fjölyrða hér í þessum sal og hef ekki nýjar upplýsingar um það.“

Helga Vala var ekki að baki dottinn:

Fiskeftirlitsmönnum fækkaði um fjórðung, eða 22, á tíu árum.

Ég þakka hæstvirtum ráðherra fyrir svarið en það er einmitt þetta með skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2018. Þar koma fram alvarlegar ábendingar um að stjórnvöld hafi markvisst dregið úr mætti Fiskistofu til eftirlits. Fiskeftirlitsmönnum fækkaði um fjórðung, eða 22, á tíu árum og er eftirlit með brottkasti talið veikburða og ómarkvisst. Svör ráðuneytisins voru að þar telji fólk brottkast óverulegt en Ríkisendurskoðun hafnaði þeirri fullyrðingu sem rakalausri enda engin gögn sem styðja hana. Nú hefur þremur eftirlitsmönnum til viðbótar verið tilkynnt að störf þeirra verði lögð niður um áramót. Einmitt þeir þrír hafa til þessa dags verið greiddir af útgerðarmönnunum sjálfum sem opinberlega hafa kvartað sáran yfir því.

Ég spyr því hæstvirtan ráðherra: Hyggst hann bregðast við þeim tíðindum að enn eigi að fækka eftirlitsmönnum? Hyggst hann mögulega breyta gjaldtökuheimildum þannig að Fiskistofa geti rukkað útgerðir um eðlilegt verð fyrir eftirlitið eða kann að vera að þessi aðhaldskrafa, sem sögð er vera ástæða þess að verið er að fækka eftirlitsmönnum í uppsagnarbréfi þeirra, sé kannski einmitt gerð til þess að koma í veg fyrir nauðsynlegt eftirlit með þessari auðlind íslensku þjóðarinnar?“

Kristján Þór steig í pontu á ný:

…það er ekki ásetningur ráðuneytisins undir minni stjórn…

„Ég hlýt að mótmæla því að aðhaldskröfur við gerð fjárlaga, hvort heldur þær eru á Fiskistofu eða aðrar ríkisstofnanir, séu settar fram til höfuðs tilteknum þáttum í starfsemi ríkisstofnana. Svo er ekki í þessu tilfelli Fiskistofu. Það er langur vegur frá. Aðhaldskrafan sem sett hefur verið á Fiskistofa, sem og aðrar stofnanir ríkisins, er almenn og það er síðan einstakra ráðuneyta eða viðkomandi stofnana að útfæra það. Forstöðumenn ríkisstofnana hafa fullt frelsi til að útfæra það hvernig þeir mæta þeirri aðhaldskröfu sem til þeirra er gerð hverju sinni. Og ég ítreka þá skoðun mína að það er ekki ásetningur ráðuneytisins undir minni stjórn að draga úr fiskveiðieftirliti. Þvert á móti ætlast ég til þess að við fáum innan tíðar tillögur þessarar verkefnisstjórnar sem á að mæta þeim athugasemdum sem Ríkisendurskoðun gerir í sinni ágætu skýrslu og ég held að við verðum að bíða þar til við fáum að sjá þær tillögur. En ég nefni það líka að í þeirri skýrslu er sömuleiðis horft til þess með hvaða hætti Fiskistofa starfar.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: