Vilhjálmur Árnason, þingmaður og ritari Sjálfstsæðisflokksins sagði á Alþingi:
„Nú er það svo að óvissan hefur verið gríðarleg fyrir Grindvíkinga og þá sem störfuðu þar, ráku þar fyrirtæki eða áttu þar eignir. Náttúran hefur skapað þessa óvissu og stjórnvöld hafa gert margt til að bregðast við því. Í aðdraganda síðustu kosninga voru það ekki síst núverandi stjórnarflokkar sem lofuðu hvað mestu um það að íbúarnir og fyrirtækin yrðu gripin og varin enn frekar. Nú er staðan sú að það er margt í blóma í Grindavík, um þúsund manns sem mæta þar til starfa á hverjum degi, allt iðandi af lífi og ferðamönnum og margt gott að gerast. En það er ein hula yfir. Það er sú óvissa sem núverandi stjórnvöld hafa skapað, það svarleysi, andlitsleysi sem þau sýna þeim áskorunum sem þar eru. Það er að skapa óvissu.
Dæmi um það er að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur tilkynnti það, að mig minnir 18. mars, að öllum sértækum aðgerðum yrði hætt og þessar almennu ættu að taka við. Núna 12. júní veit enginn enn þá hvað það er sem á að taka við, engin svör, núll. Erindum er ekki svarað eða neitt. Og hverjir lenda verst í þessu? Það eru þeir sem eru í verstu stöðunni. Þeir sem gátu ekki keypt sér híbýli eftir uppkaup ríkisins, þeir sem gátu ekki opnað fyrirtækið sitt eða bjargað sér af því að stjórnvöld tefja þau eða gefa þeim ekki frelsi til þess. Það er svoleiðis sem ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur kemur fram við fólk í veikri stöðu.“