- Advertisement -

Fáránlegir útreikningar fjármálaráðuneytisins

Marinó G. Njálsson:

Það er hins vegar rangt að halda því fram að kaupmáttur tekjuhárra rýrni við það, að tekjur hækki um innan við 10% í 10% verðbólgu, eins og ég mun skýra út hér á eftir.

Mikið er grátið núna á sumum heimilum landsins yfir því, að ríkisstjórnin hefur tekið á sig rögg og ætlar að takmarka launahækkanir nokkurra vellaunaðra einstaklinga og hópa við 2,5%. Í því tilefni hefur kaupmáttarvopninu verið beitt til að draga fram hið mikla óréttlæti sem þessir aðilar verða fyrir, sbr. meðfylgjandi graf um vöxt kaupmáttar, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi frá sér í gær (6. júní). Þarna er því haldið fram, að efsta tekjutíundin, þ.e. þau 10% landsmanna sem höfðu hæstar tekjur árið 2022, hafi orðið fyrir kaupmáttarskerðingu á því herrans ári.

Það er margt rangt í þessum útreikningi ráðuneytisins, en það sem er verst, er að kaupmátturinn er reiknaður út frá breytingum á vísitölu neysluverðs, þó svo að aðeins hluti útgjalda efstu tekjutíundanna sé vörur og þjónusta sem vísitalan mælir.

Nú vill svo til, að Hagstofa hefur reglulega framkvæmt neyslurannsóknir hjá heimilum landsins. Eitthvað er síðan síðasta neyslurannsókn var framkvæmd (eða a.m.k. eru síðustu birtu niðurstöður orðnar frekar lúnar), en það var vegna áranna 2013-2016.

Þær niðurstöður eru teknar sama eftir tekjufjórðungum, en ekki tekjutíundum. Tölurnar segja okkur þó ýmislegt. Ég hef leyft mér að framreikna allar tölur með breytingu á undirvísitölum vísitölu neysluverðs fyrir hvern lið neysluútgjaldanna, svo tölurnar nálgist líkleg neysluútgjöld vegna síðasta árs.

Í töflunni – Mynd 2 – er gerður samanburður á framreiknuðum neysluútgjöldum milli tekjufjórðunga. Fyrsta línan sýnir hlutfall neysluútgjalda neðsta tekjufjórðungsins af neysluútgjöldum hvers af hinum og svo við meðaltal allra.

Í næstu línu er 2. tekjufjórðungurinn og svo koll af kolli.

Og í töflunni – Mynd 3 – er sams konar samanburður miðað við tekjur samkvæmt skattframtali fyrir árið 2021, þ.e. upplýsingar úr skattframtölum síðasta árs liggja ekki fyrir, en gera má ráð fyrir að þær hafi hækkað um ca. 8,5%.

Á myndunum tveimur sjáum við, að mismunur á neysluútgjöldum eftir tekjufjórðungum er mun minni, en munurinn á tekjum eftir tekjufjórðungum.Hafa skal þó þann vara á, að á sama heimili geta verið einstaklingar úr mismunandi tekjuhópum, en það er nánast sjálfgefið að sé einn á heimili í efsta tekjufjórðungi, þá sé heimilið í heild líka í efsta tekjufjórðungi.

Séu neysluútgjöld borin saman við tekjur (sem eru ráðstöfunartekjur eftir skatta) fara allar tekjur lágtekjuheimila í neysluútgjöld og líklega allra heimila undir miðgildi ráðstöfunartekna, meðan heimili í 3. tekjufjórðungi eiga einhvern afgang og heimili í 4. tekjufjórðungi (þ.e. þeim efsta) eiga verulegan afgang, þegar búið er að greiða öll neysluútgjöld.

…því fjármagnstekjur bera lægri skatt en launatekjur.

Í mínum huga er eðlilegt að reikna kaupmátt með samanburði á breytingu ráðstöfunartekna og breytingu neysluútgjalda. Það þýðir að hjá heimili í 4. tekjufjórðungi miðað við eina fyrirvinnu þurfa tekjur að hækka um 5,6% í 10% verðbólgu til að halda sama stigi neysluútgjalda. Séu fyrirvinnurnar tvær, önnur í 4. tekjufjórðungi og hin í 2. tekjufjórðungi, þá myndi 4,3% hækkun ráðstöfunartekna viðhalda kaupmætti neysluútgjalda. Til að ráðstöfunartekjur hækki um 4,3% er ólíklegt að tekjur fyrir skatta þurfi að hækka svo mikið, því fjármagnstekjur bera lægri skatt en launatekjur.

Heimili í neðsta tekjufjórðungi, þar sem tveir aðilar hafa tekjur og eru báðir í 1. tekjufjórðungi, heldur kaupmætti gagnvart neysluútgjöldum með því að hækka í ráðstöfunartekjum um 9,5% sé verðbólgan 10%. Hækkun ráðstöfunartekna um 9,5% þýðir nokkuð örugglega að tekjur fyrir skatta þyrftu að hækka meira, vegna áhrifa af hærra skattþrepi og dvínandi áhrifa persónuafsláttar.

Hægt er að búa til alls konar blöndur af heimilum tekjulega séð og reikna út hve heildartekjur eða ráðstöfunartekjur þurfa að hækka mikið til að halda kaupmætti tekna gagnvart neysluútgjöldum. Það er hins vegar rangt að halda því fram að kaupmáttur tekjuhárra rýrni við það, að tekjur hækki um innan við 10% í 10% verðbólgu, eins og ég mun skýra út hér á eftir. Vísitala neysluverðs einfaldlega mælir ekki aðrar kostnaðarbreytingar en falla undir neysluútgjöld heimilanna og mælir því ekki hvernig tekjur umfram neysluútgjöld eru nýttar.

Og þetta er án þess að viðkomandi einstaklingur hafi fengið eina krónu í hærri tekjur.

Ráðstöfunartekjur sem verða eftir, þegar búið er að greiða öll neysluútgjöld fara mögulega í að kaupa hlutabréf. Gefum okkur að fyrir 2 árum hafi verið ákveðið að setja árlega 4 m.kr. í að kaupa bréf í Marel. Þann 7. júní, 2021 var gengi bréfa í Marel 872 kr. Þannig að fyrir 4 m.kr. fengust 4.587 hlutir. Við lokun markaðar 6. júní 2023 var gengi hvers hlutar í Marel 436 kr. Hægt er að kaupa 9.174 kr. fyrir 4 m.kr. á því gengi. Það er nákvæmlega tvöfalt magn hluta, 100% aukning eða 50% lækkun verðs. Kaupmáttur 4 m.kr. í hlutabréfum í Marel hafði því aukist um 100%. (Eldri fjárfestingar eru það sem heitir sokkinn kostnaður, þ.e. verða ekki teknar til baka, frekar en mjólkin sem hefur farið út á morgunkornið, bensínið sem fór á bílinn eða kostnaðurinn við líkamsræktina.) Varð þá hinn tekjuhái fyrir skerðingu kaupmáttar vegna þess að ráðstöfunartekjur hækkuðu ekki um 10% í 10% verðbólgu? Nei, alls ekki. Raunar náði hann að kaupa hluti í Marel fyrir 4 m.kr. sem hefði kostað hann 8 m.kr. fyrir tveimur árum og hann á því 4 m.kr. til að setja í eitthvað annað.

Það er því rangt hjá reiknispekingum fjármála- og efnahagsráðuneytisins, að fólk í hæstu tekjutíundinni hafi orðið fyrir kaupmáttarrýrnun árið 2022. Miðað við þróun úrvalsvísitölu, þá jókst kaupgeta þess á markaði um 36% og heildarkaupmáttur jókst um 14,4%. Og þetta er án þess að viðkomandi einstaklingur hafi fengið eina krónu í hærri tekjur.

Vissulega eru til alls konar tilbrigði af þessu og ekki fjárfesta allir á hlutabréfamarkaði. Raunar er það rangt að vera að blanda fjárfestingum inn í kaupmátt, en ég gerði það bara til að sýna hve tölur ráðuneytisins eru fáránlegar.

Vissulega eru neysluútgjöld einstaklingsbundin, en það á viðmiðið ekki að vera.

Skoðun mín er, að ekki sé hægt að mæla kaupmátt ráðstöfunartekna út frá öðru en neysluútgjöldum. Þegar ráðstöfunartekjur eru komnar langt umfram neysluútgjöld, þá er viðkomandi einfaldlega kominn á þann stað að tekjubreytingar hafa engin áhrif á þann kaupmátt sem mældur er sem samspil tekjubreytinga og breytinga á vísitölu neysluverðs. Það er ómarktækt að segja að kaupmáttur hækki eða lækki, þegar ráðstöfunartekjur eru marga tugi prósenta (eða kannski rétt að segja margar milljónir) umfram það sem fer í neysluútgjöld.

Ég hef sagt það áður og vil endurtaka það hér. Launaþegahreyfingarnar verða að fá þessari mælingu breytt, þannig að kaupmáttur taki eingöngu af samanburði tekna við miðgildi neysluútgjalda 3. tekjufjórðungs, eins og Hagstofa mælir í neyslukönnunum sínum eða þess vegna miðgildi eða meðaltal neysluútgjalda allra. Það þýðir að tekjur yfir því viðmiði sem er valið, þurfa ekki að hækka til jafns við verðbólgu til að viðhalda kaupmætti og tekjur undir viðmiðinu þurfa að hækka meira en verðbólga til að halda kaupmætti sínum. Vissulega eru neysluútgjöld einstaklingsbundin, en það á viðmiðið ekki að vera.

Greinina birti höfundur á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með leyfi Marinós. Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: