- Advertisement -

Frábærir dagar með frændum okkar Færeyingum

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra skrifaði:

Ísland og Færeyjar eiga sérstakt samband. Og ég vil beita mér fyrir því að við styrkjum tengslin við okkar góðu nágrannaríki í Norður-Atlantshafi. Enda var þetta fyrsta opinbera vinnuheimsókn mín sem forsætisráðherra.

Ég varði sunnudegi með Akseli V. Johannesen lögmanni. Við ræddum margháttað samstarf Íslands og Færeyja á sviði menningar, viðskipta og stjórnmála – og ýmis tækifæri til að efla sambandið enn frekar. Þess á milli kynntum við okkur vernd umhverfis og þjóðminja á eynni Koltur og fylgdumst svo með karlalandsliði Færeyja í handbolta vinna frækinn sigur á Úkraínumönnum. Daginn áður flutti ég ræðu sem formaður Samfylkingar á landsfundi hjá Javnaðarflokkinum sem er flokkur Aksels.

Og það var aldeilis ekki amaleg byrjun á afmælisdeginum í gær að fara í jarðgangaskoðun. Fór meðal annars í „Eysturoyartunnilin“ svokallaða þar sem er neðansjávarhringtorg. Það er alveg magnað hvað Færeyingar hafa staðið vel í uppbyggingu samgönguinnviða á síðustu árum. Og veitir innblástur. Það er einmitt eitt af aðaláherslumálum nýrrar ríkisstjórnar að byrja aftur að bora jarðgöng á Íslandi.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Myndir frá Færeyjaheimsókn Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra.

Ég kynnti mér einnig auðlindastefnu Færeyinga. Þar er breið pólitísk sátt um almenn auðlindagjöld – svo sem í sjávarútvegi og fiskeldi – og það var fróðlegt að heimsækja Bakkafrost sem er eitt stærsta og öflugasta fiskeldisfyrirtæki í heimi.

Að lokum fundaði ég með leiðtogum Danmerkur, Færeyja, Grænlands og Noregs um stöðu öryggis- og varnarmála í Norður-Atlantshafi. Það var virkilega góður fundur og mikill samhljómur. Ég vil að Ísland taki virkan þátt og veiti forystu í öryggis- og varnarsamstarfi í okkar nærumhverfi. Það gerum við best með því að þétta raðirnar og auka samstarfið við önnur ríki á svæðinu.

Takk fyrir mig, Færeyjar!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: