„En brugðist er við með æsingi og popúlisma.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
„Það er með öllum ólíkindum hversu seint mál eru að koma hér til þingsins og risastór mál sem snerta hvern einasta Íslending með beinum hætti. Hér er verið að setja á dagskrá í dag í 1. umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins.
„Þetta er risamál sem varðar hverja einustu manneskju á Íslandi og við erum að hefja 1. umræðu um það í dag og það eru átta dagar eftir. Ég minni á að umsagnarfrestur á að vera tvær vikur í málum svo að vel sé og við ætlum að ræða þetta mál í þremur umræðum. Ég hvet ríkisstjórnina til að forgangsraða og ég hvet ríkisstjórnina til að koma til samtals við stjórnarandstöðuna. Við erum alltaf til í samtalið — það hefur ekki átt sér stað — ef við ætlum að ná að klára þessi mikilvægu mál á þessu þingi,“ sagði Guðrún.
Sigmundur Davíð tók til máls og sagði:
„Ég tel ástæðu til að vekja athygli hæstvirts forseta á því, sem þó hefur eflaust blasað við hinum reynda hæstv. forseta, að hér koma nokkrir þingmenn stjórnarandstöðu með eðlilega ábendingu, umkvörtun hugsanlega, en mjög eðlilega ábendingu um fáránleika þess að mál, mikilvæg mál, stór mál ríkisstjórnarinnar komi fram hér í 1. umræðu þannig að það er ekki einu sinni tími til að fá umsagnir um þessi mál áður en þingstörfum á að ljúka samkvæmt dagskrá. En brugðist er við með æsingi og popúlisma. Þetta finnst mér gefa tilefni til þess fyrir hæstvirtan forseta að reyna nú að róa sitt lið og útskýra hvað er eðlilegt í þingstörfum og hvað ekki, að hverju skuli stefnt, menn verði að standa sig í meiri hluta sem minni hluta með það að skila málum á réttum tíma en ekki tryllast og kasta fram popúlísku, innihaldslausu tali þegar bent er á þá staðreynd.“
Þingmenn virðast, sumir hverjir, óttast að þingstörfin komi til með að dragast lengur en væntingar voru til. Hér á eftir fer brot af ræðu Ingu Sæland ráðherra:
„En ég get alveg glatt ykkur öll með því að hvert einasta mál sem við teljum mikilvægt að fari í gegnum þetta löggjafarþing, það fer þangað, ekki á átta dögum, kannski 80 dögum, ég veit ekki hversu mörgum dögum.“