- Advertisement -

Hefur áhyggjur af pukri með samninga hjúkrunarfræðinga

Að leyndin og pukrið hafi verið notað til þess að blekkja.

Björn Leví Gunnarsson skrifar:

Kæra ríkisstjórn. Fyrir tæpri viku voru undirritaðir kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga. Enn hefur ekkert heyrst um hvert efnislegt innihald þessara samninga er og sagan er að það eigi að segja sem minnst um það þangað til búið er að kynna og kjósa um samninginn.

Ég sé bara eina ástæðu fyrir slíkri leynd um kjarasamningana. Enginn hefur neitt til þess að monta sig af … af því að samningarnir sem voru undirritaðir eru ekki góðir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Áður en ég settist á þing þá var ég sérfræðingur hjá menntamálastofnun. Fyrsti launaseðillinn minn hljóðaði upp á 505 þúsund krónur fyrir rétt rúmum 6 árum síðan. Þegar ég hætti voru launin orðin 612 þúsund, fyrir 4 árum síðan í launaflokki miðað við masterspróf og grunnnám í kennslufræðum.

Samkvæmt grein Gunnars Helgasonar í tímariti hjúkrunarfræðinga frá 2017 (1. tbl) þá eru algengustu byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga eru 359 þúsund krónur fyrir fullt starf.

Tvær helstu grunnstoðir samfélagsins eru mennta- og heilbrigðiskerfið. Þó störfin innan þess séu ekki sambærileg, þá eru þau sambærileg að því leyti að þetta eru grunnstoðarstörf.

Ég hef áhyggjur af þessum samningum. Ég hef áhyggjur af því að þeir nái hvorki tilætluðum árangri miðað við skort á hjúkrunarfræðingum né væntingum um að mat á mikilvægi endurspeglist í launum. Ég hef áhyggjur af því að pukrið með innihald samningana sé til þess að forðast umfjöllun og samanburð sem gæti haft áhrif á atkvæðagreiðslu um þá. Að ef samningarnir verða samþykktir, og í ljós kemur að þeir eru í raun langt frá væntingum miðað við samanburð við aðra og samanburð við mikilvægi, þá verði vonbrigði vegna þessarar málsmeðferðar. Að leyndin og pukrið hafi verið notað til þess að blekkja.

Ég hef áhyggjur, því ef þetta eru góðir samningar sem standast fyllilega samfélagsrýni, þá væri enginn í feluleik með það. Niðurstaða samninganna verður hvort eð er opinber eftir atkvæðagreiðslu. Af hverju ekki fyrr?

Þannig að, kæra ríkisstjórn. Hættið þessu pukri og leynimakki og sýnið okkur hversu vel þið gerðuð fyrir eina mikilvægustu starfsstétt landsins.

(ég hef fleiri ástæður til þess að ætla að samningarnir séu ekki eitthvað til þess að hrópa húrra fyrir, en leynimakkástæðan dugar)


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: