- Advertisement -

Heimatilbúið kjaftæði hins verðtryggða íslenska fjármálakerfis

Marinó G. Njálsson:

Svo vil ég minna á, að vinur er sá sem til vamms segir. Margir pistlar mínir innihalda gagnrýni á röksemdir sem mér finnst ekki standast og með gagnrýninni vil ég stuðla að heilbrigðri umræðu um málefnin.

Meðfylgjandi texti er úr 7 ára gamalli færslu og finnst mér fullt tilefni til að birta hann aftur (eða eigum við að segja, enn einu sinni) í tilefni þess að það styttist í næstu vaxtaákvörðun:

„Hún er ótrúlega þrautseig þessi hugsanavilla, að ávöxtun fjármagns eigi að vera meiri en breytingar á verði neysluvöru. Það er heimatilbúið kjaftæði hins verðtryggða íslenska fjármálakerfis. Ég þori að fullyrða, að í engu öðru landi í heiminum er gerð sú krafa að fjármagn beri ALLTAF ávöxtun umfram breytingar á vísitölu neysluverðs í viðkomandi landi. Fjármagn hefur í öllum löndum (nema að því virðist á Íslandi) sinn verðmiða sem veltur á þeirri ávöxtun sem hægt er að fá á markaði. Mjög oft er sú ávöxtun í lengri eða skemmri tíma lægri en verðbólga, þó menn reyni yfir tíma fjárfestingarinnar/lánveitingarinnar að ná hærri ávöxtun, en verðbólgan er.

Annað þrautseigt íslenskt kjaftæði er að lánveitendur eigi að fá raunvirði lána sinna til baka, því annars tapi þeir á lánveitingunni. Svo er EKKI. Það eina sem skiptir lánveitendur máli er að fá meira til baka en þeir greiða í kostnað við að fjármagna útlán sín. Það er ekkert lögmál, að fjármagn eigi að halda verðgildi sínu miðað við verðlag á neysluvöru. Það er hins vegar það sem flestir fjárfestar stefna að.

Við erum fjármögnuð af innistæðum.

Verðhjöðnun tryggir ekki að lántaki verðtryggðs láns „græði“ á lántöku sinni. Líklegra er að lántakinn greiði bara tímabundið minna fyrir lánið sitt, en þegar upp er staðið mun heildarendurgreiðslan verða mun hærri en það sem tekið er að láni. Neikvæðar verðbætur gera ekkert annað en að lækka samtölu vaxta og verðbóta.

Vil svo benda […] á, að breytingar á vísitölu með húsnæði hafa tímbundið verið neikvæðar á síðustu 25 árum. Rosalega hljóta lántakar að hafa grætt á slíku.“

Fyrir einhverjum vikum birtist viðtal við Olav Guttesen, bankastjóra Betri banka í Færeyjum. Hann gaf lítið fyrir þessi rök á Íslandi, að bankar væru að tapa, ef vextir væru undir verðbólgu neysluverðs. Hann var spurður að þessu og svaraði:

„Við lítum ekki á það þannig. Við borgum innistæðueigendum vexti. Tekjurnar okkar markast af vöxtunum sem við fáum af útlánum. Við erum fjármögnuð af innistæðum.“

Þannig að það er vaxtamunurinn sem skiptir máli, ekki verðbólgustigið.

Svo vil ég minna á, að vinur er sá sem til vamms segir. Margir pistlar mínir innihalda gagnrýni á röksemdir sem mér finnst ekki standast og með gagnrýninni vil ég stuðla að heilbrigðri umræðu um málefnin.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: