- Advertisement -

Hvers vegna er þetta mikilvægt og hver eru rökin?

Marinó G. Njálsson:

En tökum samt þennan fáránlega söng, að fái bankinn ekki jákvæða „raunvexti“ þá vilji hann ekki lána, því annars tapar hann á útlánunum.

Við eigum örugglega eftir að heyra á miðvikudaginn (þegar ákvöðrun Peningastefnunefndar verður kynnt) um mikilvægi þess, að lántakar greiði jákvæða „raunvexti“, því annars græði þeir á ástandinu. Ég hef oft spurt, hvers vegna er þetta mikilvægt og hver eru rökin. Í mínum huga eru þau ekki til og sannfærist ég um þá skoðun því oftar sem hin innihaldslausu rök eru endurtekin.

En tökum samt þennan fáránlega söng, að fái bankinn ekki jákvæða „raunvexti“ þá vilji hann ekki lána, því annars tapar hann á útlánunum. Eigi þessi rök að ganga upp, þá hlýtur bankinn að þurfa jákvæða „raunvexti“ í vaxtamun. Þetta þýðir að í 10% verðbólgu þyrfti bankinn rúmlega 10% vaxtamun á útlánum og innlán eða þeim skuldabréfum sem bankinn gefur út, eftir því hvernig hann fjármagnar útlánin. Gerist það ekki, þá er bankinn ekki að fá jákvæða „raunvexti“. Hann væri í besta falli að fá jákvæðan vaxtamun.

En hvað með þann sem lánar bankanum svo bankinn geti veitt húsnæðislán? Ætti sá aðili ekki líka að fá jákvæða „raunvexti“ svo hann væri tilbúinn að lána bankanum? Það myndi þýða í 10% verðbólgu, að sá sem fékk lán hjá bankanum þyrfti að greiða vel yfir 20% vexti. Eða er það bara bankinn sem þarf jákvæða „raunvexti“ og enginn annar?

Eins gott að fjármögnunarkeðja húsnæðislánsins sé ekki lengri en tveir hlekkir. Væru þeir fimm, þá segja rök raunvaxtaliðsins, að svo allir fái jákvæða „raunvexti“, þá þyrftu vextir húsnæðislánsins að vera yfir 50%.

Staðreyndin er, að það þarf enginn í fjármögnunarkeðju húsnæðislánsins eða annarra lána jákvæða „raunvexti“. Viðkomandi þurfa bara jákvæðan vaxtamun sem þýðir að þeir fái til sín hærri vexti en þeir greiða. Þessi vextir þurfa síðan ekki að vera jákvæðir „raunvextir“.

Greinina birti Marinó fyrst á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: