- Advertisement -

Kári: Þeir standa hoknir í hnjánum

Samfélag Kári Stefánsson, læknir og forstjóri, tekur ákveðið til orða í grein sem hann skrifar ig birtist í Fréttablaðinu í dag. Í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni, og víðar, hefur Kári sagt að sækja eigi meiri peninga ti föllnu bankanna, láta þá borga skaðann sem þeir ullu, og meðal annars nýta peningana til að endurreisa heilbrigðiskerfið. Í greininni segir:

„Hvaða úrræði hafa þá staðið stjórnvöldum til boða til þess að hysja heilbrigðiskerfið upp á ásættanlegan stað? Það er ekki of mælt að ætla að það þyrfti um það bil 150 milljarða króna til þess. Og hvaðan ættu þeir svo sem að koma? Í leit að svari við þeirri spurningu beinist athyglin að þrotabúum þeirra banka sem settu samfélagið á hliðina. Fyrr á árinu gáfu Sigmundur og Bjarni það í skyn að ríkið myndi sækja allt að 850 milljarða króna í þrotabúin en þegar upp er staðið virðist það ætla að verða um 300 milljarðar. Ekki hafa fengist haldgóðar skýringar á því hvers vegna þeir sætta sig við svo skarðan hlut en eitt er víst að 500 milljarðarnir sem á milli ber hefðu gert gott betur en að laga íslenskt heilbrigðiskerfi.

Það lítur helst út fyrir að nægjusemi flokksforingjanna tveggja eigi rætur sínar í því að þeir hafi ekki viljað taka þá áhættu að styggja aðra kröfuhafa í þrotabúin með því að taka meira. Það er dapurlegt að sitja uppi með kornunga leiðtoga sem ættu aldur síns vegna að vera hungraðir, kraftmiklir og hugrakkir en þora ekki að taka það sem við þurfum og eigum skilið. Það er eins og þeir geri sér ekki grein fyrir því að það er miklu meiri áhætta tekin með því sækja ekki nægilegt fé í þá einu sjóði sem eru okkur aðgengilegir til þess að bylta íslensku heilbrigðiskerfi inn í nútímann. En þeir eru sem sagt reiðubúnari til þess að taka þá áhættu sem felst í því að láta þjóðina búa við stórgallað heilbrigðiskerfi og úrelt.

Og Sigmundur og Bjarni standa hoknir í hnjánum fyrir framan kröfuhafana sem eru fulltrúar hins erlenda auðvalds, og eru hreyknir yfir því að þeir kvörtuðu ekki undan dílnum sem þeir fengu og virðast ekki gera sér grein fyrir því að það voru ekki bara kröfuhafarnir sem glötuðu allri virðingu fyrir þeim þegar buxurnar þeirra fóru að blotna heldur hið alþjóðlega samfélag allt og ekki síst íslensk þjóð.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: