Miðaldra skósveinar og pótintátar hafa lengi reynt að kenna konum að halda sig á mottunni.
Sif Sigmarsdóttir.
Gleðilegan laugardag!
Blaðamaðurinn Kolbrún Bergþórsdóttir skrifaði fjörmikinn pistil í Morgunblaðið nýverið. Þar hæddist hún að framgöngu Sjálfstæðisflokksins í stjórnarandstöðu og komst að eftirfarandi niðurstöðu:
„Að manni læðist einlæg ósk um að flokkur sem ákveður að stunda svo skelfilega vonda pólitík sitji sem lengst í stjórnarandstöðu.“
Áhugafólk um fjölmiðla hafði ekki fyrr fyllst von um að enn lifði í gömlum glæðum Morgunblaðsins en að sú von varð að engu. Fulltrúi einsleitni hugmyndanna og litleysis tilverunnar var ekki lengi að stökkva til varnar grámanum.
Í dagskrárliðnum „Orðið á götunni“ á DV var upplýst um að blaðamaður Morgunblaðsins Andrés Magnússon hefði verið sendur út af örkinni til að hvísla skömmum að Kolbrúnu, væntanlega í von um að hún héldi sig á mottunni – og við flokkslínuna – í framtíðinni. Sendiförin fór þó öðruvísi en Andrés ætlaði.
Kolbrún neitaði að hvísla. Þvert á móti hellti hún sér yfir Andrés svo að allir heyrðu og engum duldist hvaða erindi Andrés átti við hana. Sagði hún yfirmenn blaðsins einfaldlega geta rekið sig mislíkaði þeim skrifin, en hún væri með sex mánaða uppsagnarfrest sem þeir mættu þá gera sér að góðu að borga.
Furðuvera stjórnmálanna
Þeir sem fara um og hvísla skömmum að öðrum gera slíkt vafalaust í þeirri trú að þannig nái þeir fram ákveðnu markmiði. En þess konar framganga er þó ekki síður líkleg til að vinna málstað umvöndunarmannanna skaða.
Í síðasta fréttabréfi játaði ég á mig þau bernskubrek að hafa eitt sinn verið skráð í ungliðahreyfingu stjórnmálaflokks. Sem annar tveggja ritstjóra vefrits ungliðahreyfingarinnar fékk ég fljótt að kynnast furðuveru sem hefur hvergi orðið á vegi mínum annars staðar en í stjórnmálum: Reiða hvíslaranum.
Ég hafði ekki fyrr skrifað mína fyrstu grein fyrir vefritið en skósveinar og pótintátar fóru að hvísla að mér að halda mig á mottunni. Skammirnar voru alltaf í hálfum hljóðum, í einrúmi, hvöss skilaboð eða reiðileg símtöl á kvöldin. Það er nefnilega meiri ógn falin í því að hvísla skömmum í eyra einhvers en að gagnrýna athafnir, skrif eða frammistöðu þeirra fyrir opnum tjöldum. Yfir hvíslinu ríkir andi mafíósans: Ég veit hvar þú átt heima; ég þekki valdamikið fólk og kanna að toga í spotta; ekki láta þér bregða þótt þú finnir afskorið hestshöfuð í rúminu þínu.
Fullorðnum mönnum var um síðustu aldamót vissulega frjálst að hringja heim til háskólanema sem bjó enn í foreldrahúsum til að siða hana til. Orð reiða hvíslarans skiluðu þó aldrei tilætluðum árangri heldur uppskáru hlátrasköll á næsta ungliðadjammi og fleiri greinar um það sem ekki mátti segja.
LESANDI VIKUNNAR

Svo virðist sem reiði hvíslarinn lifi enn góðu lífi innan stjórnmálanna.
Í ár fagna ég því að hafa starfað sem pistlahöfundur í tuttugu ár. Ég hef ávallt gaman af viðbrögðunum sem pistlarnir vekja – jákvæðum og neikvæðum. Því fátt er hollara huganum en að skiptast á skoðunum. Það gefur lífinu lit að vera ósammála. Hvers vegna ættum við öll að hugsa eins?
Á tuttugu ára ferli hef ég þó aldrei heyrt frá reiða hvíslaranum. Fyrr en nú.
Nýverið bárust mér persónuleg skilaboð frá lesanda sem skammaði mig fyrir pistil, sem ég skrifaði fyrir allnokkru í Heimildina, og krafðist þess að ég bæðist afsökunar á skoðun minni. Slíkt hefði ekki heyrt til tíðinda ef ekki væri fyrir þær sakir að reiða hvíslið barst frá maka stjórnmálamanns, sem fannst að lífsförunauti sínum vegið.
Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að fólk sem starfar við fjölmiðla færi sig yfir í stabílli störf almannatengla og PR-fulltrúa. Ég skal játa það; mín er freistað. En þangað til ég stíg skrefið til fulls er hér ókeypis PR ráð handa mökum stjórnmálafólks:
Reiði hvíslarinn hefur sjaldan erindi sem erfiði.
Hefðu skilaboðin endað í persónulegu pósthólfi smellþyrstari pistlahöfundar en undirritaðrar hefði maka reiða hvíslarans eflaust beðið annasöm vika – kannski álíka annasöm og vika Andrésar Magnússonar.
En þar sem ég er þeirrar skoðunar að frambærilegt stjórnmálafólk eigi ekki að líða fyrir dómgreindarbresti maka sinna segi ég þessu fréttabréfi lokið.