- Advertisement -

Kurteisin reynist dýrkeypt

Leiðari Vinstri græn ákváðu að vera pen, vera kurteis og haga sér vel í kosningabaráttunni. Þegar þeirra helsti andstæðingur setti í fjórhjóladrifið og spólaði aurnum yfir allt og alla, kvörtuðu Vinstri græn ekki. Létu allt yfir sig ganga. Þeim virðist ekki hafa komið til hugar að svara fyrir sig, hvað þá að svara í sömu mynt. Samt var af nógu að taka.

Svo vill til að við kusum síðast fyrir réttu ári. Fyrir þau sem hafa gleymt því, þá faldi þáverandi fjármálaráðherra tvær skýrslur, um hina meintu leiðréttingu og um Panamaruglið, fram yfir kosningar. Og til upprifjunar þá er enn styttra síðan sett var lögbann á fréttir af asnaspörkum sama manns í viðskiptalífinu, þar sem hann hikaði ekki við að greiða eigin götur með því að nota netfang Alþingis sjálfum sér til framdráttar. Ekkert af þessu var notað í kosningabaráttunni. Merkilegt.

Þetta er bara brotabrot. Kurteisin, eða meðvirknin eða hvað sem þetta er, hefur kannski orðið til þess að Vinstri græn hafa misst frá sér þriðjungs þess fylgis sem hafði safnast að flokknum, og það á aðeins rúmri viku. Sömu viku og helsti andstæðingurinn tætti og tryllti yfir allt og alla. Gallup sýnir lítinn, og jafnvel ómarktækan mun, á VG og Samfylkingunni, sem var við dauðans dyr fyrir réttu ári. VG nálgast að verða þriðji stærsti flokkurinn.

Sigurjón M. Egilsson.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: