Þar gæti reynsla Íslendinga af friðargæslu og fraktflutningum nýst vel. Við þekkjum okkar styrkleika og munum áfram byggja á þeim.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Ég sótti fjölmennan leiðtogafund um frið og öryggi í Úkraínu sem Macron Frakklandsforseti bauð til í Elyseé-höll í París í fyrradag. „Evrópa er mætt aftur til leiks“ var leiðarstefið á fundinum. Það er rétt. Við höfum þétt raðirnar hratt á undanförnum vikum.
Viðræður eru hafnar um vopnahlé í árásarstríði Rússa í Úkraínu en það þýðir ekki að vopnahlé sé í höfn. Þess vegna viljum við styrkja varnir Úkraínu enn frekar og munum ekki bakka með refsiaðgerðir gagnvart Rússum. Til að þrýsta á réttlátan og langvarandi frið. Þetta voru lykilskilaboð út af fundinum.
Ísland mun áfram leggja sitt af mörkum, til dæmis með viðbótarfjármagni í gegnum danska frumkvæðið sem styrkir vopnaframleiðslu í Úkraínu og jarðsprengjuleit. Verið er að skoða frekari aðkomu okkar til að styðja við Úkraínu, sérstaklega ef vopnahlé kemst á. Þar gæti reynsla Íslendinga af friðargæslu og fraktflutningum nýst vel. Við þekkjum okkar styrkleika og munum áfram byggja á þeim.
Stefna Íslands hvað þetta varðar er skýr.
Evrópa fer ekki í þessa vegferð ein. Við munum áfram vinna þétt með NATO og Bandaríkjunum. Þarna á Ísland mikilla hagsmuna að gæta, sem NATO-ríki í Norður-Atlantshafi, og ég gæti þess að halda þeim hagsmunum ávallt á lofti.
En ég nýtti líka tækifærið á fundinum og kom á framfæri þökkum til Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, fyrir þá staðfestu sem hún hefur sýnt í málum Grænlands undanfarnar vikur. Stefna Íslands hvað þetta varðar er skýr. Ekkert um Grænland án Grænlendinga. Framtíð Grænlands á að vera í höndum Grænlendinga sjálfra. Og við eigum allt okkar undir því að sjálfsákvörðunarréttur þjóða og alþjóðalög séu virt. Ég hef átt gott samtal við sendifulltrúa Grænlands á Íslandi og hlakka til samstarfs við nýju í landstjórnina í Grænlandi.
Eftir stutt stopp í París var ríkisstjórnarfundur í gærmorgun. Við erum að afgreiða mál hratt og vel inn í þingið. Á mánudag kynnum við svo fjármálaáætlun til næstu fimm ára um öryggi, innviði og varnir landsins. Þá verður líka 100 daga afmæli ríkisstjórnarinnar. Tímamót sem við formenn stjórnarflokkanna ætlum að staldra aðeins við – nánar um það síðar!
Njótið helgarinnar, kæru vinir