- Advertisement -

Leikur sem snýst um að gabba launafólk

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrifar:

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um kjaradeilu Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja við Samtök atvinnulífsins en SSF hafa nú vísað deilunni til ríkissáttasemjara. Þau vilja ekki gera samning VR og iðnaðarmanna að sínum, telja hækkanirnar ekki nægilegar og gagnrýna 66.000 þakið. Það er eflaust fremur fyrirsjáanlegt. En það sem er áhugavert fyrir okkur í Eflingu er gagnrýni framkvæmdastjóra SSF á undirritaða samninga. Hann bendir réttilega á að raunveruleg hækkun sem samið hefur verið um er miklu lægri en haldið er fram af samningsaðilum vegna þess að inn í henni er þegar umsaminn hagvaxtarauki, sem hefði ávallt komið til launafólks frá og með 1. maí 2023.

Fram að þessu hefur aðeins Efling bent á þennan ósvífna blekkingarleik, kokkaðann upp af forystu SGS í samvinnu við SA, leik sem snýst um að gabba launafólk og hleypa atvinuurekendum skellihlæjandi frá samningsborðinu, hafandi afrekað að selja fólki aftur hækkun sem þegar var þeirra.

Draumasamningar íslenskrar auðstéttar.

Staðreyndin er sú að þeir kjarasamningar sem undirritaðir hafa verið eru draumasamningar íslenskrar auðstéttar. Launafólk á að sætta sig við mylsnu á meðan hin ríku taka einfaldlega til sín kökuna eins og ekkert sé. Sú kaupmáttarrýrnum sem launafólk hefur orðið fyrir á þessu ári er óbætt. Kaupmáttaraukning fyrir næsta ár verður lítil, ef einhver. Þrátt fyrir að við séum í blússandi hagvexti og að sannkallað góðæri ríki hjá forréttindahópum þjóðfélagsins.

Efling á augljóslega ekki mikið sameiginlegt með Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja. Efling er félag verka og láglaunafólks, ómissandi vinnuafls höfuðborgarsvæðisins, félagar í SSF eru háskólamenntaðir meðlimir milli og efri-millistéttar. En við eigum þó greinilega það sameiginlegt að hafa ekki áhuga á hundakúnstum og brellum gagnvart þeim sem við semjum fyrir.

Kannski er það svo að vinnuaflið sem knýr áfram hjól atvinnulífsins og þau sem starfa inn í kapítalismanum sjá nákvæmlega það sama: Í góðæri og gríðarlegum hagvexti er ekkert fáránlegra en að semja af sér og láta eins og tap sé sigur.

Ég get ekki annað en glaðst yfir því að fleiri en Efling treysti sér til að benda á að keisarinn er eiginlega ekki í neinum fötum.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: