- Advertisement -

Lilja verður þá sem álfamær

…að hæstvirtur menntamálaráðherra geti í sjálfu sér búið til svona mörg lítil RÚV með því að mylgra peningum…

„Ég sé fyrir mér hæstvirtan menntamálaráðherra eins og álfamey í Disney-mynd sem flögrar um og dreifir gulldufti yfir þá fjölmiðla sem hún hefur velþóknun á. Þannig sé ég þetta fyrir mér og ég losna eiginlega ekki við þessa mynd úr hausnum,“ sagði Þorsteinn Sæmundsson Miðflokki.

Þorsteinn er mjög hugsi yfir því að ráðherrann eigi, með reglugerð, að útdeila 350 milljónum til fjölmiðla. „Nú veit ég ekki af hverju þetta er gert með þessum hætti. Mig rennir í grun að menntamálaráðherra hafi haft sitt fram um þetta mál í ríkisstjórninni í staðinn fyrir að láta þinginu það eftir hvernig þessum fjármunum skyldi útdeilt, eins og við gerum yfirleitt þegar um ríkisfé er að ræða,“ sagði Þorsteinn.

„Mér finnst þetta mergurinn málsins, það er í sjálfu sér óeðlilegt með öllu að ráðherra skuli fá svona drjúg völd til að fara með opinbert fé. Þetta eru 350 millj. kr., mikið fé. Von mín stendur til þess að ráðherra fari ekki í þetta hlutverk sem ég lýsti áður og vænti þess að þegar málið gengur til nefndar muni nefndin taka þennan þátt sérstaklega til gaumgæfilegrar athugunar og gagnrýninnar umfjöllunar þannig að undið verði ofan af þessu ákvæði og Alþingi sjálft komi að því að setja ramma um það hvernig þessu fé verður úthlutað. Það er líka annar flötur á þessum teningi og sá er að fjölmiðlarnir allir verða að búa við þá vissu að þessum peningum sé skipt milli þeirra á hátt sem er hafinn yfir vafa og byggður á ákveðnum gildum,  ég má ekki segja „kríteríum“, herra forseti, ég veit það  og úthlutunin sé byggð á rökum sem halda hvar sem er. Þess vegna geri ég alvarlega athugasemd við það að hæstvirtur menntamálaráðherra geti í sjálfu sér búið til svona mörg lítil RÚV með því að mylgra peningum í þessar áttir með reglugerð.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: