- Advertisement -

MBL gegn SAJ. 2. hluti: „Eins og kóperaður úr Kommúnistaávarpinu“

„Það hefur verið merkilegt að fylgjast undanfarið með framgöngu Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar og fámenns hóps í kringum hana. Dag eftir dag höfum við séð í sjónvarpsfréttum fólk með ofstækisfullan baráttuglampa í augum, steyta hnefann og hrópa og góla. Áberandi er hvað þetta fólk er lukkulegt í ofstæki sínu fyrir framan sjónvarpsvélar. Það veit greinilega að það er að komast í kvöldfréttirnar,“ skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður sem er nýkomin aftur á Moggann.

„Við höfum nú fengið skýra mynd af hugarheimi Sólveigar Önnu og félaga. Þessi heimur er eins og kóperaður úr Kommúnistaávarpinu. Orðið „auðstétt“ hefur skyndilega gengið í endurnýjun lífdaga og hið sama á við um „vinnuafl“ og „valdastétt“. Reynt er að draga upp mynd af fullkomum andstæðum og festa í huga þjóðarinnar. Þar er annars vegar efnað fólk og fulltrúi þess er hinn ríki atvinnurekandi sem á nóg af öllu en vill stöðugt græða meira. Hins vegar er stritandi og dauðþreytt starfsfólk sem á vart milli hnífs og skeiðar og sér fram á ömurlegt ævikvöld,“ skrifar Kolbrún.

Og áfram: „Vei þeim sem leyfa sér að rétta upp hönd og segja kurteislega að hér sé um svarthvíta mynd að ræða, atvinnurekendur séu ekki í eðli sínu vondir, það sé ekkert rangt við að vera vel stæður, það geri fólk ekki sjálfkrafa gráðugt og sjálfselskt. Jú, vissulega eigi að leggja áherslu á að rétta kjör þeirra sem lægstu launin hafa, og þar komi ýmsar leiðir til greina, en tryllingslegt stéttastríð sé ekki ein þeirra. Þeir sem leyfa sér að impra á slíku eru snarlega sagðir vera á mála hjá „auðstéttinni“ eða þrá að koma sér í mjúkinn hjá henni.“

Svo virðist sem Kolbrún hafi týnt jafnvæginu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Byltingarliðið er orðljótt en um leið óskaplega viðkvæmt ef einhver svarar því. Viðbrögð þess við gagnrýni eru að ausa svívirðingum yfir gagnrýnendur sína og vona að þannig verði þaggað niður í þeim. Merkilegt er svo að sjá hversu mörgum þykja svívirðingarnar í góðu lagi og jafnvel flott innlegg í íslenska þjóðfélagsumræðu. Þannig eru ýmsir sem þrá að komast í mjúkinn hjá byltingarliðinu og skjalla það ógurlega. Og komast fyrir vikið í fréttir netmiðla,“ ætli Kolla eigi við Halldór Benjamín? Sennilega ekki.

Nú brýnir Kolla hnífinn:

„Sólveig Anna gælir við drauminn um sósíalíska byltingu – sem mun vitaskuld aldrei verða. Formaður Eflingar lifir í Kommúnistaávarpinu, ekki raunveruleikanum. Og svo maður hugsi upphátt þá hlýtur að vera mjög erfitt fyrir fulltrúa atvinnulífsins að sitja við samningaborð og eiga að ná málamiðlun við einstakling sem lítur á þá sem eitraða sendimenn „auðstéttarinnar“. Það má þó hafa vissa samúð með Sólveigu Önnu fyrir að þurfa að eiga samskipti við menn sem hún stimplar sem forherta óvini „vinnuaflsins“.

Hatrammt stéttastríð er engin lausn til að bæta kjör þeirra verst settu, en þá staðreynd er ekki hægt að hamra inn í höfuð þeirra sem hatast út í atvinnurekendur. Þeir vilja valda sem mestum skaða í samfélagi sem þeir trúa ekki á. Það er hins vegar svo að fólk sem hvað eftir annað gerist sekt um ofstæki fær ekki almenna samúð. Byltingarsinnarnir ættu að átta sig á því, hætta eyðileggingarstarfsemi sinni og leitast við að skilja samtímann sinn. Almenningur vill ekki lifa og hrærast í kenningum Karls Marx.“

Þetta er svo makalaust að það tekur varla tali. Endemis þvæla.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: