- Advertisement -

Meirihlutinn segir þörf á að bæta kjör starfsmanna á leikskólum

„...þegar hefur nærri 1,2 milljörðum króna verið varið í aðgerðir...“

Sanna Magdalena lagði fram fyrirspurn um starfsfólk leikskóla borgarinnar. Svar hefur borist og eftir að það lá fyrir bókaði meirihlutinn að bæta þurfi kjör starfsfólksins.

Alls starfa rúmlega 1800 starfsmenn við leikskóla í borginni. „Þetta er fjölbreyttur hópur með margvíslega menntun og reynslu að baki og allir þessir einstaklingar vinna mikilvæg störf með börnum. Leikskólakennarar eru tæpur þriðjungur þessara, fjórðungur hefur aðra háskólamenntun, margir í uppeldis- og menntunarfræðum, og ríflega þriðjungur er ófaglærður. Mikilvægt er að fjölga leikskólakennurum og að því er unnið, m.a. í samstarfi ríkis, háskóla og borgarinnar. Sömuleiðis þarf að fjölga körlum í starfsliði leikskólanna, bæta kjör starfsfólks og halda áfram að bæta vinnuumhverfi starfsfólks en þegar hefur nærri 1,2 milljörðum króna verið varið í aðgerðir í þá veru, s.s. með fjölgun undirbúningstíma og starfsmannafunda, fjölgun starfsfólks á eldri deildum, stækkun rýmis fyrir leik og starf, endurbætur á húsnæði o.s.frv.“

Fyrirspurn Sönnu er svona:

„Samkvæmt upplýsingum frá skóla og frístundasviði Reykjavíkurborgar störfuðu 1.335 starfsmenn við menntun og uppeldi barna í borgarreknum leikskólum árið 2017. Til að leitast við að skyggnast nánar inn í samsetningu starfsfólks í leikskólum Reykjavíkurborgar, legg ég eftirfarandi fyrirspurnir fyrir borgarráð: Hver er heildarfjöldi starfsfólks í leikskólum Reykjavíkurborgar? Hver er aldursdreifing starfsfólks í leikskólum Reykjavíkurborgar? Hvert er hlutfall kvenna á meðal starfsfólks í leikskólum Reykjavíkurborgar? Hvert er hlutfall karla á meðal starfsfólks í leikskólum Reykjavíkurborgar? Hvert er hlutfall kvenna á meðal ófaglærðra í leikskólum Reykjavíkurborgar? Hvert er hlutfall karla á meðal ófaglærðra í leikskólum Reykjavíkurborgar? Hvert er hlutfall fólks af erlendum uppruna á meðal starfsfólks í leikskólum Reykjavíkurborgar? Hvert er hlutfall fólks af erlendum uppruna á meðal ófaglærðs starfsfólks í leikskólum Reykjavíkurborgar?“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: